149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

málefni aldraðra.

[15:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Við verðum að átta okkur á því að við erum miklir eftirbátar Norðurlandaþjóðanna í þessu. Íslenska heilbrigðiskerfið virðist ekki vera tilbúið til að taka við þessum málaflokki og ekki batnar það þegar eldri borgurum stórfjölgar.

En það sem er alvarlegast í þessu, sem mér finnst gleymast, er það álag sem lagt er á maka viðkomandi. Og hvað erum við að gera með því? Jú, við erum að ýta vandanum á annan aðila sem síðan veikist og það veikir aftur kerfið. Það er engin lausn. Ef þetta snýst um lausn við Sjúkratryggingar Íslands þá bara leysum við það, göngum í það. Þörfin er alger og það verður eitthvað að gera. Við verðum að hætta hreppaflutningum. Hreppaflutningar eru ekki lausnin á vandanum sem skapast vegna heilabilunar. Heilabilað fólk þarf að vera nálægt sínum nánustu og við verðum að sjá til þess að það fái viðeigandi þjónustu í nærumhverfi.