149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

endurgreiðslur vegna kaupa á gleraugum.

507. mál
[17:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin. Ég verð að segja að vissulega er þetta í fyrsta sinn sem við eigum orðastað um þetta málefni, en það er þó þannig, og það er kannski það sem hryggir mig, að í svarinu sem ég fékk á sínum tíma kemur fram að formleg vinna við endurskoðun hafi ekki farið fram, en í því segir, með leyfi forseta:

„Formleg vinna við endurskoðun á stöðu þeirra sem þurfa dýrari sjóngler hefur ekki farið fram en í markmiðaáætlun Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að ákvæði fyrrgreindrar reglugerðar verði endurskoðuð og þar muni miðstöðin óska eftir aðkomu barnaaugnlækna og annarra þeirra sem best þekkja til. Ráðuneytið gerir ráð fyrir því að niðurstöður þeirrar vinnu liggi fyrir eigi síðar en undir lok fyrsta ársfjórðungs 2016.“

Ég gerði satt að segja ráð fyrir að við værum komin lengra í þeirri vinnu og ég hvet hæstv. ráðherra til þess núna, þegar við erum að byrja að vinna fjármálaáætlun, að í henni verði gert ráð fyrir — helst vil ég náttúrlega að gert sé ráð fyrir því að reglugerðin verði klárlega uppfærð til dagsins í dag og hvort ekki sé hægt að setja það inn með þeim hætti að það taki eðlilegum verðlagsbreytingum. Það er sérstakt að svona lagað geri það ekki. En að það nái inn, hvort svo sem heldur út frá því sem ég hef verið að reifa í máli mínu eða því sem ég hef lagt hér þrisvar fram, að hóparnir verði stækkaðir og víkkaðir.

Ég átta mig á að þetta kostar töluverða peninga, en ég hefði viljað sjá þó ekki væri nema þetta tvennt. Annars vegar að reglugerðin væri uppfærð og það kæmi fram í fjármálaáætlun og að þessi yngsti hópur sem þarf á þessu að halda, aukinni niðurgreiðslu vegna læknisfræðilegra ástæðna, (Forseti hringir.) verði líka tekinn inn í þá púllíu þegar við förum að ræða fjármálaáætlun.