151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

börn á biðlistum.

[13:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á heilbrigðisþjónustu við börn og ekki síst umfjöllun um geðheilbrigðismál, en við höfum rætt um þennan málaflokk hér ítrekað. Ég vil fullvissa hv. þingmann um að sú sem hér stendur brennur sérstaklega fyrir þessum málaflokki, þ.e. þar sem saman koma hagsmunir barna og geðheilbrigðismál, enda höfum við tvöfaldað fjölda sálfræðinga í heilsugæslunni á þessu kjörtímabili. Við höfum ýtt af stað áætlun um geðrækt í leik-, grunn- og framhaldsskólum, sem er samstarfsverkefni menntamálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og félagsmálayfirvalda, vegna þess að lengi býr að fyrstu gerð. Við þurfum líka að hugsa um forvarnir og við þurfum að hugsa um að geðheilbrigði er stórt verkefni sem snýst ekki bara um geðheilbrigðisþjónustu. Við höfum náð að stilla betur saman strengi í þjónustunni sem heild. Þar er það líka afar mikilvægt að bið sé ekki óhófleg, og ég tek algjörlega undir það sem hér er sagt um þau mál, ekki síst þegar um er að ræða bið eftir þjónustu eins og hjá Þroska- og hegðunarstöð eða Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Því miður hefur það verið þannig að þessi bið hefur stundum verið á fleiri en einum stað, þannig að komið hefur upp að börn hafa bæði verið að bíða eftir þjónustu hjá BUGL, Greiningar- og ráðgjafarstöð og Þroska- og hegðunarstöð, og því segja biðlistarnir ekki alla söguna eins og hún er. En oftar en ekki er það þannig, sem betur fer, að ef börn eru á biðlista eftir þjónustu hjá barna- og unglingageðdeild þá njóta þau þjónustu á meðan á biðinni stendur.