151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

nýsköpun.

[13:32]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn en ætla að byrja á því að segja að nálgun mín og okkar á nýsköpunarmál er alls ekki til skamms tíma. Hér er ekki um að ræða skammtímalausnir. Áhersla mín hefur verið á nýsköpunarmál frá því að ég steig inn í þetta ráðuneyti og löngu fyrir Covid-kreppu eða samdrátt í efnahagslífinu. Áhersla á nýsköpunarmálin er einfaldlega forsenda þess að við getum tryggt áfram sambærileg lífsgæði, tryggt að hér sé eftirsóknarvert að búa, lifa, starfa og hrærast. Það er alveg sama hvort við horfum á tækifæri til verðmætasköpunar, aukinna gjaldeyristekna eða lausna við þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, hvort sem það eru líffræðilegar breytingar á samfélaginu, loftslagsmál o.s.frv., nýsköpun er svar við þessu öllu.

Þegar við höfum farið í svona stórar breytingar og mikinn aukinn stuðning í endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar hjá fyrirtækjum skiptir máli að líka sé tekið út hverju það skili. Ég geri því ekki athugasemd við að við höfum farið í þetta fyrst um sinn tímabundið til að vera alveg viss um að við séum að ráðstafa stuðningi á rétta staði. Ég held reyndar að við séum að gera það vegna þess að umsvifin hafa aukist mjög og maður finnur verulega fyrir því hversu miklu máli þetta skiptir. Það sem ég hef lagt áherslu á í ráðuneyti mínu, og er samstarfsverkefni á milli okkar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins, er líka að framkvæmdin sé tekin út, að við séum alveg viss um að við séum að endurgreiða í samræmi við þau markmið sem við höfum sett okkur. Það er mjög jákvætt að umsvifin hafi aukist mikið. En hin svokölluðu útgjöld, ef útgjöld má kalla en þau eru alltaf hlutfall af umsvifum, hafa verið meiri en við höfum gert áætlanir um. Ég vil líka að við stöndum alveg á traustum grunni áður en við tökum afstöðu og ákvörðun um hvort þessi útfærsla eins og hún er núna sé til allrar framtíðar.