151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[13:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir að gefa okkur tækifæri til að ræða stöðu innviða og þjóðaröryggis, sem er einmitt eitt af því sem hefur verið lykilatriði núverandi ríkisstjórnar og kannski orðið enn meira áberandi en ella vegna þeirra atburða sem gengið hafa yfir samfélagið á undanförnum misserum.

Hv. þingmaður hóf mál sitt á því að ræða um jarðhræringar á Reykjanesskaganum sem við höfum öll fundið fyrir á undanförnum dögum. Og þess er skemmst að minnast þegar fárviðri mikið gekk yfir norðurhluta landsins sem setti í raun alla innviði úr skorðum. Ef þetta fárviðri hefur kennt okkur eitthvað er það mikilvægi þess að stefna okkar sem samfélags sé samhæfð, að ólík ráðuneyti og stofnanir vinni vel saman að skýrum markmiðum. Ég ætla að segja það í upphafi máls míns að þótt við séum lítið samfélag þá virðist það allt of oft brenna við að stofnanir og ráðuneyti eigi erfitt með að vinna saman. Hver og einn vill bara sjá um sína torfu og áttar sig ekki á því að öll erum við þjónar heildarinnar, þjónar samfélagsins alls.

Hér er komin nýleg eftirfylgniskýrsla sem hefur kannski ekki vakið mikla athygli, enda er eftirfylgni stefnu ekki endilega vinsælt fjölmiðlamál. Í henni er fjallað um hvernig gengið hefur að fylgja eftir þeim aðgerðum sem við ákváðum að ráðast í í kjölfar fárviðrisins. Ég nefni þetta sem dæmi um hvernig stefnumótun á að virka og hvernig við eigum að vinna. Þar lögðum við til 287 nýjar aðgerðir eða flýtiaðgerðir til að styrkja innviði landsins sem snerust um varaafl, aukinn áreiðanleika raforku- og fjarskiptakerfa, skilgreiningu á hlutverki og mönnun fyrirtækja og stofnana, samræmingu skipulags innviða, eflingu almannavarnakerfis, fræðslu og upplýsingagjöf til almennings og eflingu rannsókna og vöktunar á náttúruvá. Fyrstu eftirfylgni, því að þetta er bara fyrsta af mörgum ef ég fæ einhverju ráðið, er nú lokið. Þar er þetta flokkað upp í skammtímaaðgerðir og langtímaaðgerðir og vinna við 85% langtímaaðgerðanna er hafin og vinnu við ríflega helming skammtímaaðgerða var að fullu lokið í lok ársins 2020 þegar tíu mánuðir voru liðnir af átakinu. Svona eigum við að nálgast verkefnin því að þetta snýst um heildarhagsmuni. Þetta snýst ekki um einstök kjördæmi og þetta snýst ekki um einstakar stofnanir eða ráðuneyti.

Hv. þingmaður nefnir mikilvægi þess að skilgreint sé lögformlega hvaða innviðir samfélagsins eða hlutar þeirra teljist mikilvægir með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna. Því er til að svara að ég hef sett af stað vinnu við nákvæmlega þetta verkefni., þ.e. að móta tillögur að lagaumgjörð sem gerir stjórnvöldum kleift að ákveða með formlegum hætti hvaða innviðir teljast mikilvægir út frá þjóðaröryggishagsmunum, vernd þeirra og rýni fjárfestinga í nánar tilteknum innviðum, til að mynda landi og náttúruauðlindum. En við getum líka rætt hluti á borð við samgöngumannvirki og aðra slíka innviði, sem skipta miklu máli fyrir þjóðaröryggi.

Þegar við ræðum um grunninnviði reynist það stundum flóknara en kann að virðast við fyrstu sýn því að margir þættir í kerfinu mega í raun og veru ekki klikka. Tökum bara mjög einfaldan hlut eins og varaafl sem dæmi, sem getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir öryggi borgaranna, sem varð misbrestur á í desember 2019 en er núna búið að kortleggja á nýjan leik. Síðan má nefna margvísleg fyrirtæki, eignir og verðmæti á sviði orku, fjarskipta, samgangna, hafna, flugrekstrar, sjávarútvegs, fjármálakerfis, heilbrigðiskerfis, matvæla, fæðu, neysluvatns og fráveitukerfa eða þýðingarmikilla kerfa vegna öryggisþarfa. Enn og aftur eru þetta málefnasvið sem falla undir mörg ólík ráðuneyti og kalla á mikla samhæfingu.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður nefndi þjóðaröryggisstefnuna og hvort hún væri nægjanleg. Við höfum skilað þinginu mati á ástandi og horfum, og ég hef væntingar til þess að því verði dreift á næstu dögum, sem er hluti af því sem við gerum á vettvangi þjóðaröryggisráðs, þ.e. að birta reglulega mat á ástandi og horfum. En það er ljóst að skilningurinn á öryggishugtakinu eins og hann birtist í þjóðaröryggisstefnunni þótti nútímalegur. Það er mikilvægt að við séum með hann til reglulegrar endurskoðunar. Ég vil nefna að nýr forseti Bandaríkjanna hefur til að mynda tekið þá ákvörðun að loftslagsváin sé eitt af lykilöryggishugtökum þar núna, þannig að nú er verið að ræða loftslagsvána á vettvangi þjóðaröryggis í Bandaríkjunum. Þetta þykja töluverð tíðindi þar. Við settum að vísu loftslagsmálin inn sem eitt af atriðunum í þjóðaröryggisstefnunni. En ættu þau að vega þyngra? Það er eitt af því sem við þurfum að ræða. Þjóðaröryggisstefnan mótast kannski að einhverju leyti (Forseti hringir.) líka af því að hrunið var okkur þá í fersku minni og fjármálaöryggi eru þar gerð töluvert góð skil.

Þetta er umfangsmikið mál. (Forseti hringir.) Ég ætla að koma betur að því í lokin hvað varðar forræði aðila á mikilvægum grunninnviðum (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður kom að í lok máls síns. En það er mál sem ég tel að (Forseti hringir.) við getum rætt í tengslum við umgjörð um mikilvæga grunninnviði, herra forseti.

(Forseti (SJS): Meira að segja þjóðaröryggi verður að falla innan ræðutímamarka.)