151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:02]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir að setja þessa mikilvægu umræðu á dagskrá. Öryggi þjóðarinnar tekur auðvitað til ólíkra þátta, hnattrænna og samfélagslegra, hernaðar og náttúruhamfara. Uppbygging innviða þarf að taka mið af ólíkum ógnum og tryggja hagsmuni almennings. Þessi umræða er ekki síst mikilvæg núna þegar jörð skelfur á Reykjanesi, aurskriður og snjóflóð hafa nýlega fallið í byggðum og heimsfaraldur geisar. Innviðir okkar verða að tryggja flóttaleiðir íbúa og þeir verða að vera búnir undir truflanir á flutningum á matvælum og vistum og truflanir á sjúkraflugi. Raforkuöryggi og trygg fjarskipti skipta líka höfuðmáli, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem reynslan hefur sýnt okkur að rof á þessum þáttum getur magnað þann skaða sem fylgir náttúruhamförum.

Hvort ríkið eigi síðan að fara alfarið með skipulagsvald mikilvægra innviða er síðan önnur spurning. Ég geld varhuga við umræðu um að skerða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Höfuðábyrgð á framkvæmd skipulagsmála liggur almennt hjá sveitarfélögum enda þekkja íbúar landsbyggðarinnar manna best þarfir, áskoranir og tækifæri í nærumhverfi sínu. Við eigum að virða það en á sama tíma að tryggja nægilegt fjármagn til að þeim sé unnt að sinna þessum verkefnum. Það er hlutverk okkar sem förum með fjárstjórnarvaldið á Alþingi. Svarið er ekki aukin ríkisvæðing innviða heldur aukinn stuðningur við nauðsynlega uppbyggingu.

Inn í þessa umræðu langar mig að varpa spurningu um alþjóðasamstarf: Hvernig er unnið að framfylgd alþjóðlegra viðmiða í framkvæmd og áhættustýringu? Hvernig er horft til reynslu nágrannalanda okkar og hvernig er innviðauppbygging fjármögnuð í gegnum þátttöku okkar í þjóðaröryggissamstarfi við aðrar þjóðir? (Forseti hringir.) Þetta eru alger lykilatriði í að tryggja öryggi og hagsmuni þjóðarinnar.