151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:12]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það eru ýmsar breyttar ytri aðstæður í lífi okkar, átök víða um heim, loftslagsbreytingar og netöryggi er hætt vegna árása og annað slíkt. En ég ætla ekki að nefna dæmi um það í sjálfu sér heldur frekar um okkar innri aðstæður sem breytast líka. Ég ætla að nefna stækkandi orkuflutningsnet og meiri orkuþörf og bætt meginvegasamband, ljósleiðaravæðinguna og samgöngur í lofti og á sjó sem skipta okkur miklu máli, t.d. varðandi fæðuöryggi. Ég er þeirrar skoðunar að þessar breyttu aðstæður, hvort sem þær ytri eða innri, kalli á endurmat, stöðugt endurmat, bæði á stefnu í þjóðaröryggismálum, ákvörðunarleiðir og fjármögnun. Þess vegna tel ég að heildarendurskoðun á þjóðaröryggisstefnunni sé orðin tímabær.

Þjóðaröryggi snýr auðvitað að ytri ógn, eins og ég kom örstutt að, en svo er það hin innri ógn, m.a. náttúruváin sem við fáum beint í æð í dag. Hún kallar á að við endurskoðum viðhorf til forræðis innviða og ræðum það í fullri alvöru. Þá er ég sammála hv. þingmanni sem hér talaði á undan mér, Bryndísi Haraldsdóttur, um að við endurskoðum viðbrögð okkar og sýn á þetta forræði og förum að hyggja að því hvernig við getum fært hluta af því til ríkisins í meira mæli. Efla forvarnir — ég nefni t.d. raflínunefndina sem hér er til umræðu í nefndum þingsins, almannavarnir og ótal aðra hluti — og auka ákvörðunarvald ríkisins í þeim efnum og efla gott samráð við sveitarfélögin, vissulega. Þetta tengist svo aftur endurskoðun á viðhorfi til hinnar ytri ógnar (Forseti hringir.) þar sem margt er til verkefnis og ég ætla ekki að fara frekar út í. En ég hallast að þessu breytta viðhorfi.