151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir góða umræðu og ætla aðeins að ræða það sem varðar yfirráð innviða hér á eftir. Ég vil þó segja að þegar við lítum yfir síðustu misseri og ár held ég að við getum flest verið sammála um að stærsta öryggisógn sem steðjað hefur að samfélagi okkar sé heimsfaraldur kórónuveiru. Þar stendur Ísland ótrúlega vel í alþjóðlegu samhengi. Óháðar mælingar mæla okkur í sjöunda sæti í því hvernig okkur hefur tekist að takast á við faraldurinn í samanburði við aðrar þjóðir. Af hverju er það? Er það af því að við erum svo ótrúlega klár? Eða er það vegna þess að við eigum öflugt heilbrigðiskerfi og sterka samfélagslega innviði?

Sterkt samfélag er öruggt samfélag og þannig þurfum við að nálgast orkukerfið, fjarskiptakerfið, öll þessi mikilvægu kerfi. Við þurfum að hugsa þau út frá hugmyndinni um samfélagslegt öryggi. Þannig búum við okkar borgurum sem best öryggi. Við erum að ná ótrúlegum árangri vegna þess að við erum til að mynda með jafnan aðgang að þjónustu fyrir alla þá sem þurfa að leita til kerfisins, hvort sem er í skimun eða meðferð við sjúkdómnum. Slíkt kerfi eiga ekki allar þjóðir í kringum okkur, þær sem við berum okkur saman við. Þetta er ótrúlegur styrkleiki í öryggismálum íslensku þjóðarinnar.

Hv. málshefjandi nefndi sérstaklega skipulagslöggjöfina. Nú liggur fyrir tillaga um það hvernig við getum til að mynda tekist á við flutningskerfi raforku með öðrum hætti, sem ég held að sé skynsamlegt. Ég held að það sé mikilvægt að stíga varlega til jarðar því að vissulega er sjálfstæði sveitarfélaga mjög mikilvægt og það eru heimildir sem við viljum ekki að verði misnotaðar. En það skiptir hins vegar máli að við getum átt þetta samtal við sveitarfélögin um hvenær er við hæfi að hlutir séu ekki í hinu hefðbundna skipulagsferli og séu teknir út fyrir sviga. Við (Forseti hringir.) sjáum líka að tillagan sem er hér til meðferðar er umdeild, það eru ekki allir á eitt sáttir um hana. Þetta er hins vegar hluti af skipulagslöggjöf nágrannaríkja okkar alveg eins og þar er gert ráð fyrir ákveðinni rýni (Forseti hringir.) á erlendar fjárfestingar sem ég held að við þurfum að horfast í augu við að við þurfum líka að tileinka okkur.

Ég segi: Horfum á það hvað nágrannaríkin hafa verið að gera. (Forseti hringir.) Stígum varlega til jarðar en horfumst í augu við að þarna eru stórar áskoranir sem skiptir máli að ríki og sveitarfélög vinni saman að. (Forseti hringir.) — Herra forseti. Afsakið aftur, en þetta er stórt málefni.