151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

562. mál
[15:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Tilgangur frumvarpsins er að auka skýrleika laganna og bæta skilvirkni eftirlits stjórnvalda, þar sem markmiðið er að tryggja öryggi fólks á sviði hollustuhátta og stuðla að heilnæmu umhverfi.

Meginefni frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að styrkja heimildir ráðherra til að kveða í reglugerð á um lágmarkskröfur um menntun, þjálfun og námskeið fyrir þá aðila sem þurfa að hafa þekkingu og hæfni á sviði sóttvarna, skyndihjálpar og öryggis, sem og próf sem viðkomandi skal standast til að sýna fram á þekkingu þannig að hægt sé að tryggja öryggi á sviði hollustuhátta gagnvart almenningi. Þessar lágmarkskröfur eiga m.a. við um sundkennara, laugaverði og sundþjálfara og miða að því að tryggja að hlutaðeigandi geti bjargað fólki úr laug, beitt skyndihjálp og endurlífgun enda er um mikilvægt öryggishlutverk á sund- og baðstöðum að ræða. Ákvæði þessi eiga einnig við um aðila sem starfa við að gata eða flúra húð eða veita meðferð með nálastungum og þurfa að kunna og geta beitt sýkingarvörnum.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu skýrðar frekar eftirlitsskyldur stjórnvalda og umfang eftirlits með starfsemi og athöfnum sem valdið geta mengun eða ógnað hollustuháttum og eru ekki háð leyfis- eða skráningarskyldu. Hér er ekki um nýtt eftirlit að ræða heldur er verið að kveða skýrar á um eftirlitsskyldur Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og skyldur þeirra aðila sem háðir eru eftirliti. Mikilvægt er að skýrt sé að skylda eftirlitsskyldra aðila til að veita upplýsingar eigi við um alla starfsemi sem heyrir undir lögin. Dæmi um starfsemi og athafnir sem myndu falla hér undir eru opin leiksvæði sem þurfa að uppfylla ákvæði reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim, skemmtistaðir sem þurfa að uppfylla ákvæði um hávaðamörk, hreinlæti á lóðum og opnum svæðum, dreifing og notkun seyru og frístundahúsasvæði þar sem heilbrigðisnefndum er heimilt samkvæmt reglugerð að fara fram á ráðstafanir til að minnka slysahættu í umhverfinu og tryggja almenn loftgæði. Í þessu sambandi er mikilvægt að eftirlitsaðilar geti beitt þeim úrræðum sem lögin gera ráð fyrir og þörf er á gagnvart starfsemi sem fellur undir lögin.

Í þriðja lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögunum til að skýra nánar hvenær starfsemi sem felur í sér endurnýtingu úrgangs er háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar eða heilbrigðisnefndar. Í því skyni er lögð til stærðarafmörkun á slíkri starfsemi í viðauka IV með lögunum, sem stuðlar að því að verkaskipting milli þessara tveggja stjórnvalda sé skýr.

Auk framangreindra atriða er lagt til að styrkt verði gjaldtökuheimild Umhverfisstofnunar varðandi skráningu á mengandi atvinnustarfsemi, sem er m.a. hluti af þeirri stefnu stjórnvalda að auka rafræna stjórnsýslu. Einnig er bætt við heimild til að beita stjórnvaldssektum á einstaklinga eða lögaðila sem virða ekki ákvæði starfsleyfa um mengunarvarnir, hvíld svæðis, skýrsluskil eða mælingar og fleira og auk þess lögð til breyting á ákvæði um skil umhverfisupplýsinga til að auka skilvirkni þeirra.

Ekki er gert ráð fyrir fjárhagsáhrifum hjá ríkissjóði vegna frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarp og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.