151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

hlutafélög.

299. mál
[15:43]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hlutafélög sem snýr að uppgjörsmynt arðgreiðslna. Frumvarp þetta hefur verið lagt fram áður á 148., 149. og 150. löggjafarþingi — það var 51. mál á 150. löggjafarþingi — en náði ekki fram að ganga í þau þrjú skipti og er því endurflutt óbreytt í fjórða skiptið. Í ljósi þess að ég hef flutt þetta mál þrívegis ætla ég að leyfa mér að vísa bara í kynningar á málinu og greinargerð frumvarpsins hvað nánari útlistun varðar.

En mig langar örstutt að fjalla um hvers vegna þetta skiptir máli, aðeins út fyrir það sem fjallað er um í greinargerðinni. Eins og hagkerfi okkar er sett upp er gengið út frá því að fyrirtæki vilji græða. Það er gott, það er fínt, það er bara mjög eðlilegt og við eigum auðvitað að ýta undir slíkt. Við getum að vísu alveg stoppað og hugsað hvort hægt sé að hafa hagkerfi sem vex endalaust á plánetu sem er ekki endalaus, en látum það liggja milli hluta í augnablikinu. Fyrirtæki græða en eignir þeirra eru af margvíslegum toga. Sumar eignir eru í peningum, einfaldlega í íslenskum krónum eða jafnvel öðrum gjaldmiðlum. Sumt er eignir, fasteignir, hlutabréf í öðrum fyrirtækjum, verðbréf, skuldabréf og annað álíka. Ótrúlega margar tegundir af eignum geta komið til, svo sem búnaður og slíkt.

Vandamálið sem hér er leitast við að leysa er hvað gerist þegar fyrirtæki ákveður að greiða út arð. Eins og staðan er í dag er hægt að greiða út arð og þá þarf að tilgreina hversu mikill arðurinn er. En nákvæmlega á hvaða formi hann er greiddur út og hvernig uppgjörið fer fram er svolítið í höndum stjórnar hverju sinni. Þetta þarf ekki endilega að vera vandamál nema ef fyrirtæki eru sem dæmi með innra bókhald sitt í íslenskum krónum og gera upp arð í evrum. Þá getur verið spurning hvernig eigi að reikna gengið nákvæmlega, út frá hvaða degi eigi að reikna það. Ef við erum að tala um að arður sé greiddur út í formi fasteignar, hvernig á þá að verðmeta fasteignina? Á að verðmeta hana upp á nýtt daginn sem arðurinn er greiddur út eða er hægt að notast við gamalt verðmat? En þegar um er að ræða hlutabréf? Má ganga út frá því að það sé á sama verði, kaupverði þess tíma þegar fyrirtæki eignaðist hlutinn eða þarf að reikna það upp miðað við flutningsdag? Allt eru þetta spurningar sem núverandi löggjöf getur ekki alveg svarað. Það eru auðvitað til einhverjar viðmiðunarreglur og einhverjar þumalputtareglur sem hefur verið stuðst við en það er rosalega erfitt að tryggja að alltaf sé rétt farið að. Vandamálið verður áberandi flóknara þegar við erum að tala um ekki bara venjulegt fyrirtæki heldur fjármálafyrirtæki. Fjármálafyrirtæki eru með fullt af aukareglum sem eru hugsaðar til að verja stöðu þeirra í hagkerfinu, útlánagetu þeirra, styrkja varnir þeirra gagnvart efnahagslegum uppákomum og óhöppum. Þegar óljóst er nákvæmlega með hvaða hætti á að gera upp arðgreiðslur getur verið að þarna sé í rauninni falinn mekanismi til að geta t.d. fært töluverðar eignir út úr banka á þann hátt sem grefur undan getu bankans til að verjast án þess að endilega sé brotið gegn reglum um eigið fé og þess háttar í CRD- viðmiðunum og öllu því.

Hér er einfaldlega lagt til að við gerum þá kröfu að arður sé greiddur út í sömu mynt og fyrirtækið gerir bókhald sitt upp í. Það er ekki flókið. Það er ekki fleira. Það er rosalega einfalt. Það sem þetta gerir er að það lokar fyrir fullt af möguleikum á misnotkun. Þetta skaðar ekki nokkurt fyrirtæki eða nokkurn eiganda fyrirtækis sem ekki hyggst nýta sér slíkan mekanisma og það kemur í rauninni ekki heldur í veg fyrir að fyrirtæki geti selt eignir til að fjármagna arðgreiðslur, eða hvað svo sem það er. Til eru aðrar leiðir til að láta þessa gerninga ganga upp ef það er ætlunin. Þetta kemur bara í veg fyrir einfaldar bókhaldsbrellur sem ég held að ekkert fyrirtæki ætli sér að beita. Ég vona alla vega að ekkert fyrirtæki ætli sér að beita þeim. En það er hætt við því að þetta gerist. Það er ekki verið að leggja þetta frumvarp fram að ástæðulausu heldur út frá fenginni reynslu, bæði hér á landi og í öðrum löndum, þar sem þetta hefur verið gert, annaðhvort fyrir gáleysi eða, fyrst og fremst erlendis að mínu viti, af illum ásetningi.

Að þessu sögðu legg ég til að málið fari til efnahags- og viðskiptanefndar, verði jafnvel tekið fyrir þar og afgreitt svona einu sinni.