Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

upplýsingar um kaupendur Íslandsbanka.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að þær upplýsingar sem hafa verið birtar bæði almenningi og Alþingi, og ráðherrum þar með talið, því þetta eru í raun og veru sömu upplýsingarnar, sýna að afslátturinn margumræddi sem hefur verið til umræðu sé umtalsvert lægri afsláttur en við mætti búast í ferli sem byggir á þessari aðferðafræði. Meðal annars hefur verið bent á það að afsláttur hafi að meðaltali verið um 6,4% hjá sambærilegum evrópskum félögum en hann hafi orðið hærri eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Þetta er eitt af því sem mér finnst mikilvægt að komi fram. Það sem ég vil segja við spurningu hv. þingmanns er að ég held að fyrsta skrefið sé að við verðum að tryggja algjört gagnsæi um þessa sölu og hver keypti. Þá er hægt að leggja mat á það hvort rétt sé að afla frekari upplýsinga um málið. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur óskað eftir lista með þeim fjárfestum sem keyptu í útboðinu með bréfi til Bankasýslunnar þann 30. mars. Ég tel fulla ástæðu til þess að þessar upplýsingar verði afhentar. (Forseti hringir.) Það hefur verið óskað eftir áliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um hvort (Forseti hringir.) einhverjar lagalegar hindranir séu í þeim vegi og sé það svo þá tel ég eðlilegt að Alþingi taki það til sérstakrar skoðunar.