Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[15:49]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis nefna, í samhengi við athugasemd hæstv. forseta um að hér eigi að ræða fundarstjórn forseta, að þetta hefur með það að gera hvaða mál við tökum til umræðu á þessu þingi. Það er alveg ljóst að þetta frumvarp er eitthvað sem reynt hefur verið að ná í gegn áður og það hefur ekki tekist. Það er alveg ljóst að það að setja þetta frumvarp á dagskrá er tímasóun, það er sóun á dýrmætum tíma og orku þingmanna og það er verið að gera það í fjórða skipti. Þess vegna hefur þetta með fundarstjórn að gera. Það er engin þörf á þessu. Það er skammur tími til stefnu. Nú erum við með sveitarstjórnarkosningar rétt fyrir þinglok. Það er fjöldi mála sem þarf að afgreiða í einum grænum í lok þings vegna þess að ríkisstjórnin dró lappirnar við að leggja fram þau mál sem hún ætlaði að leggja fyrir þingið. Það er verið að leggja þetta fram eina ferðina enn, það er verið að sóa tíma þingsins.