Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að þegar við köfum aðeins undir yfirborðið séu flest fyrirtæki — fyrir utan auðvitað þá svörtu sauði sem eru, sama hvort horft er á hóp einstaklinga eða fyrirtækja eða hvaða hluti samfélagsins það er, iðulega í hverjum hópi — ef við horfum bara aftur á míkróhagkerfið á Íslandi þá séu fyrirtæki gegnumgangandi samfélagslega ábyrg sem betur fer. Maður sér það, alveg sama hvort horft er á einhverja fótboltaferð 6. flokks úti á landi eða yfir í risaverkefni eins og söfnunina sem við sáum í sjónvarpinu síðastliðinn sunnudag, að með einum eða öðrum hætti er þetta allt drifið áfram af stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka eins og þarna sem tosa það til sín. Það fór í gegn löggjöf á liðnu þingi sem liðkar að einhverju marki fyrir þessu, en ég held að við ættum alltaf að hafa það í huga að reyna að lágmarka óþarfareglusetningu sem engu skilar. Við sjáum t.d. að einhverjir fyrirsvarsmenn kirkjukóra landið um kring hafa setið sveittir við að skrá raunverulega eigendur kirkjukórsins. Það skilar engu. Það blasir við. Þeir sem ætla sér illt láta slíkt ekki stoppa sig. En ég held að við ættum að halda allri reglusetningu þannig að svigrúmið til að geta látið gott af sér leiða sé sem allra mest fyrir fólk og fyrirtæki.