Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:35]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir seinna andsvarið. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni. Það hefur verið rosalega fallegt að horfa upp á það, sérstaklega núna undanfarnar vikur, að fyrirtæki virkilega leggja hönd á plóginn þegar kemur að hjálparstarfi og að sjá að við sem samfélag getum gert góða hluti. Það að geta fengið afslátt frá sköttum fyrir að gera samfélagslega hluti er nokkuð sem er mun opnara t.d. í Bandaríkjunum en hér. Þrátt fyrir að það hafi verið opnað fyrir það hér eru enn þá takmörk á því.

Ég er líka hjartanlega sammála því að við þurfum að passa að regluverkið sé ekki of mikið. Það er dálítið fyndið með kirkjukórana og húsfélögin sem þurftu allt í eina skrá raunverulega eigendur, að sú krafa kom aldrei að utan. Sú krafa kom af því að eina leiðin fyrir aðra en einstaklinga að fá kennitölu úthlutað til að geta opnað bankareikning var að skrá þessa kirkjukóra og hlutafélög í fyrirtækjaskrá. Krafan utan frá var að fyrirtæki í fyrirtækjaskrá væru gefin upp. Skatturinn einfaldlega var ekki tilbúinn til að hafa tvö aðskilin tölvukerfi, annað til að halda utan um þessi félagasamtök, húsfélög, kirkjukóra o.s.frv., sem eru ekki í rauninni fyrirtæki, og svo hins vegar fyrirtækin. Það var aldrei krafa um húsfélögin og það erlendis frá. Hún var bara af því að tölvan sagði nei hjá Skattinum.