Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég er viss um að sú sem situr í forsetastóli núna geti tekið undir með mér þegar ég segi að við ræðum utanríkismál allt of sjaldan hér í sal, hvað þá að við ræðum EES-mál. Það gerum við allt of sjaldan miðað við hversu mikið vægi þau hafa á framþróun samfélagsins og lagaumhverfis hér á landi. Hér erum við að ræða tillögu til þingsályktunar sem varðar fjármálakerfið á Íslandi og það fyrsta sem slær mann við svoleiðis tillögur þegar þær koma til okkar er að Ísland er eiginlega bara stundum einni stærð of lítið fyrir þetta regluverk sem við fáum til okkar. Við fáum þessar tilskipanir frá Evrópu, oft smekkfullar af góðum hugmyndum sem væri gaman að hrinda í framkvæmd, en vegna þess að Evrópa setur öll stærðarmörk miðað við miklu stærri samfélög en við búum í þá á fæst af þessu við um Ísland. Ég velti þess vegna fyrir mér hvort við ættum kannski að fara að líta á þessar tilskipanir, þó að þær séu kannski ekki allar bindandi að þjóðarétti, sem einhvers konar hvatningu til þess að við tökum upp hluti miðað við hlutfallsleg stærðarmörk.

Til gamans fletti ég því upp að íslensku lífeyrissjóðirnir áttu í ársbyrjun eignir upp á 6.550 milljarða. Bankarnir íslensku áttu eignir á svipuðum tíma upp á 4.719 milljarða. Þetta eru samanlagt rúmir 11.000 milljarðar sem er þreföld þjóðarframleiðsla Íslands á einu ári. Þó að þessar fjármálastofnanir nái því ekki einu sinni að eiga 100 milljarða evra á sínum efnahagsreikningi þá eiga þær þrefalda þjóðarframleiðslu Íslands og hafa þess vegna í íslensku samhengi mjög mikið vægi. Þess vegna er sitthvað í þessari tillögu sem vert er að skoða og ýmislegt svo sem við höfum skoðað.

Ég staldra t.d. við e-lið í 2. kafla greinargerðarinnar varðandi það að starfskjarastefna fjármálafyrirtækja skuli vera kynhlutlaus. Fyrst velti ég fyrir mér hvort kynhlutlaus sé endilega rétta orðið í þessu samhengi vegna þess að til þess að leiðrétta þá skekkju sem er á vinnumarkaði þarf stefnan einmitt ekki að vera hlutlaus á kyn heldur þarf hún að taka tillit til þeirrar kynjaskekkju sem er á vinnumarkaðnum. Hún þarf, eins og ég held að Alþjóðaþingmannasambandið hafi t.d. kallað það þegar sambandið beitir sér fyrir umbótum í löggjafarþingum, að vera kynnæm. Hún þarf að vera næm á kynbundnu skekkjuna sem þarf að leiðrétta. Þetta erum við farin að kunna dálítið á hér á landi eftir að við t.d. innleiddum jafnlaunavottun í lög. Hvað kom þá í ljós? Það er kannski ekki nóg að vera bara með starfskjarastefnu um að jafna laun á milli fólks sem gegnir sambærilegu starfi, að sjá til þess að ein hilla í fyrirtækinu sé jöfn, heldur þarf að skoða allan strúktúr kerfisins.

Þetta skiptir sérstaklega miklu máli í fjármálageiranum á Íslandi, fyrir utan það að fjármála- og vátryggingastarfsemi, sú atvinnugrein þar sem óleiðréttur launamunur kynjanna er mestur á Íslandi, er líka grein þar sem karlar stýra. Það hefur gengið mjög illa að leiðrétta þá skekkju í íslenska fjármálakerfinu. Kjarninn hefur t.d. árlega tekið út stöðu kynjanna í fjármálakerfinu, birt greinaflokk um hvaða fólk það er sem stýrir peningunum okkar og nýjustu tölur 2021 voru þær að stjórnendur íslensku fjármálafyrirtækjanna væru 83 karlar og 11 konur. Þetta er um það bil óbreytt þau átta ár sem Kjarninn hefur skoðað þetta.

Eitt af verkfærunum sem við höfum til þess að snúa þessari skekkju við eru t.d. reglur sem voru settar hér fyrir rúmum áratug varðandi hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja vegna þess að alla vega fólkið sem flutti það mál á sínum tíma gerði það m.a. með vísan til þess að með því að topparnir yrðu jafnari myndi sá jöfnuður einhvern veginn seytla í gegnum fyrirtækin og hafa áhrif á starfsemi þeirra. En hvað gerðist? Árið 2010 þegar frumvarp um jafnt kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja og stofnana var lagt fram og samþykkt voru konur 19,5% stjórnarmanna á Íslandi. Þegar lögin tóku að fullu gildi 2013 voru konur 30,5% stjórnarmanna. Á síðasta ári þegar lögin voru búin að vera að fullu í gildi í átta ár hafði hlutfall kvenna ekki hækkað nema upp í 34,1% frá þessu 30,5% sem var þegar lögin tóku gildi. Þetta gerist á hraða snigilsins þannig að við hljótum að þurfa að skoða hvernig er hægt að hraða þessu.

Þá langar mig að rifja upp þingmál sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir flutti í þessum sal fyrir nokkrum árum þar sem hún benti sérstaklega á að það eru engin viðurlög við því að fylgja ekki lögum um hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja. Þetta er náttúrlega algerlega á skjön við það sem er t.d. raunin í Noregi, þangað sem Ísland sótti fyrirmyndina að þessum lögum á sínum tíma, enda hefur árangurinn verið mun meiri í Noregi. Það er nefnilega þannig, frú forseti, að stundum þarf viðurlög til að ákvæðum laga sé fylgt og í tilfellum fyrirtækja þarf dagsektir. Það var einmitt tillagan sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom með í áðurnefndu frumvarpi, þá var hún að horfa á samvinnufélög sérstaklega, ef ég man rétt. Hún lagði til að það myndu einfaldlega leggja dagsektir á félögin ef þau uppfylltu ekki reglur um kynjakvóta þannig að þau fyndu það á pyngjunni ef þau færu ekki að lögum. Það held ég að væri nú ansi milt úrræði miðað við ýmsar þvingunarheimildir sem settar hafa verið í lög á Íslandi, að sekta fyrirtæki ef þau fylgja ekki lögum.

Ég sé að tíminn er að renna frá mér en mig langar að nefna g-lið 2. kafla greinargerðarinnar sem mér finnst sérstaklega áhugaverður og varðar það að stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum skuli hafa fjölbreyttan bakgrunn. Sporin hræða kannski varðandi kynjabreiddina, að við höfum ekki náð að fylgja þeim ákvæðum eftir eins og ég hef farið yfir, en það væri ofboðslega spennandi ef við næðum einhvern veginn utan um það að atvinnulífið í landinu endurspeglaði þann fjölbreytileika sem er í samfélaginu miklu betur en það gerir í dag, ekki bara varðandi kyn og aldur, sem við erum kannski vanari því að ræða, heldur uppruna og fötlun og hvað það er sem getur einkennt fólk annað en kyn og aldur. Ekki síst skiptir þetta máli í fjármálafyrirtækjunum sem hafa svo ofboðslega mikið um það að segja hvernig samfélagið þróast í krafti sinna fjárfestinga.

Við þurfum ekkert að rifja upp, frú forseti, hvernig fór hér á árunum fyrir hrun þegar bankarnir tútnuðu út af allt of einsleitum bisnesskörlum sem steyptu öllu í glötun. Þar hefði fjölbreytileikinn svo sannarlega komið að gagni.