Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

stjórn fiskveiða o.fl.

451. mál
[20:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa skemmtilegu ræðu. Þetta var nánast eins og að vera kominn aftur í menntaskóla þegar fólk kom upp og las stílana sína. En mér fannst nú öllu svakalegri tíðindin um kælinguna á fiskinum og líklega þarf ég að huga betur að því af því að mér finnst andlitið á mér hafa blásið út síðustu árin, ár frá ári. Hv. þingmaður virðist hafa kynnt sér þetta mál nokkuð vel og flaggaði því hér að það væri líklegt að verð á fiski sem við mættum veiða gæti numið 9,3 milljörðum. En nú er það auðvitað ekki nema hálf sagan. Verðmætið hlýtur náttúrlega að vera aflaverðmæti fisksins, söluverðmæti fisksins, mínus útgerðarkostnaðurinn. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að við hefðum við litla reynslu, litla þekkingu og lítið af tækjum. Hefur hv. þingmaður kynnt sér hvort það sé líklegt að þessar veiðar geti hreinlega staðið undir sér eða hvort það sé vafasamt út frá þeirri vöntun sem augljóslega er? Ef nettó verðmæti sem fást fyrir þetta á endanum eru ekki mjög mikil, má skilja hv. þingmann þannig að miðað við ástandið sem er á túnfiskstofninum sé það kannski vafasamt að það sé réttlætanlegt að Ísland sé að sækja í þetta?