Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

stjórn fiskveiða o.fl.

451. mál
[20:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef áhyggjur af því að Atlantshafsbláuggatúnfiskurinn sé á válista. Við þurfum því að fara varlega í því að byrja að veiða þetta. Túnfiskurinn er einn uppáhaldsmaturinn minn þannig að það er slæmt að þurfa að segja það en ég held að ef við ætlum að veiða þessa tegund þá þurfum við líka að fjárfesta í rannsóknum, vera hluti af alþjóðlegum rannsóknum, af því að þetta er stofn sem fer í lögsögu margra. Við þurfum að taka þátt í því til þess að tryggja að við séum ekki að ofveiða, að það sé gert á vísindalegum grunni. Þá þurfum við að innheimta einhver gjöld þannig að hægt sé að standa undir þeim rannsóknum. Því miður er það nú þannig að það sem greitt er fyrir í veiðigjöld stendur ekki einu sinni undir því eftirliti og þeim rannsóknum sem við erum með í dag og öðru slíku, þannig að þarna þyrfti að passa að það sé inni frá upphafi.

Hv. þingmaður spyr: Hvernig á að úthluta kvótanum? Ég held að við getum horft til baka. Við vorum öll að fylgjast með góðum sjónvarpsþáttum um hvernig það var gert síðast og ég held að það hafi ekki verið gert á góðan máta. Ég held við þurfum að hugsa upp nýjar og betri leiðir til að koma kvótanum út, enda er um mikil verðmæti að ræða.