153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

skýrsla ríkisendurskoðanda um fiskeldi á Íslandi.

[15:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hún var svört, skýrslan frá Ríkisendurskoðun, sem var birt í morgun, um stöðu fiskeldis í landinu. Hún er áfellisdómur um framkvæmdarvaldið og allt utanumhaldið utan um þessa annars mikilvægu atvinnugrein. Í skýrslunni segir m.a.:

„Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinna gegn því að auðlindin skili hámarksávinningi fyrir ríkissjóð hefur fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda. Verðmætum í formi eldissvæða og lífmassa hefur verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds …“.

Það má auðvitað spyrja sig, virðulegi forseti, hvort ríkisstjórnin hafi eftir sex ára setu raunverulega ekki meiri metnað fyrir hönd þeirrar ört vaxandi og stækkandi og mikilvægu atvinnugreinar sem fiskeldið er. En það má líka spyrja hvort það gildi einu hvaðan útflutningstekjurnar koma, þótt það sé á kostnað umhverfis, þótt það sé á kostnað náttúrunnar, góðrar stjórnsýslu og heilbrigðrar atvinnuuppbyggingar og hvað þá í sátt við samfélagið.

Ríkisstjórnin hefur, eins og ég segi, haft sex ár til að koma þessari mikilvægu atvinnugrein inn í ramma sem við gætum öll verið stolt af og líka lært svolítið af því sem gerðist í kringum sjávarútveginn. Ef ríkisstjórnin tekur þessa skýrslu ekki alvarlega — það kæmi mér reyndar á óvart að hún gerði það miðað við forsöguna. Ríkisstjórnin verður að taka þessa skýrslu alvarlega, annars verður næsta þáttaröð, Verbúðin 2, einfaldlega um fiskeldið.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé stolt af því að einn helsti vaxtarsproti íslensks efnahagslífs skuli búa við óboðlegt og slælegt eftirlit, eins og kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðanda, og að stjórnsýslan sé í molum. Er það boðlegt að náttúran sé sett til hliðar? Er það boðlegt að eðlilegt gjald fyrir tímabundið leyfi hefur ekki verið greitt fyrir auðlindina? Ég vænti þess að forsætisráðherra svari mjög skýrt og gefi út skýr skilaboð til atvinnugreinarinnar en líka til samfélagsins alls.