153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

frumvarp um útlendinga.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem varðar frumvarp til laga um útlendinga. Ég vil byrja á því að gera hv. þingmanni grein fyrir því að þetta frumvarp var lagt fram hér á þingi í talsvert annarri mynd en það var kynnt á sínum tíma í samráðsgátt, m.a. vegna þeirra áherslna, sem hafa ekki breyst af hálfu Vinstri grænna, sem varða grundvallaratriði í útlendingamálum og eiga raunar samhljóm með ýmsu af því sem var rætt hér á þinginu síðast þegar þessi mál voru til umfjöllunar og varðar t.d. þau atriði sem tengjast sérstökum tengslum útlendinga við landið og upptöku efnismeðferðar. Þá hefur einnig verið fjallað sérstaklega um hagsmunamat barna sem er eitt af því sem hefur verið töluvert lengi til skoðunar af hálfu dómsmálaráðuneytisins og unnin var um það sérstök skýrsla en líka af hálfu mennta- og barnamálaráðuneytis. Þegar hv. þingmaður fer hér yfir hvort eitthvað hafi breyst þá er það svo sannarlega ekki svo. Það hafa einmitt verið gerðar breytingar á málinu frá því að það var kynnt upphaflega og þangað til það var lagt fram í þá átt sem ég hef ávallt talað fyrir, sem snýst um það að við höfum vissulega útlendingalöggjöf, það séu ákveðnar reglur um það hvernig við framkvæmum hlutina en þar sé mannúðarsjónarmiða gætt. Ég hef sagt það og mér finnst eðlilegt að tiltekin atriði verði tekin til skoðunar, m.a. vegna umsagna sem komu seint fram eftir því sem mér er sagt í meðförum nefndarinnar og það hefur verið reifað að þau mál verði skoðuð milli umræðna. Þetta segi ég út frá upplýsingum frá fulltrúa VG í hv. allsherjar- og menntamálanefnd því að ég sit auðvitað ekki þar. Það er bara til marks um þá afstöðu okkar að mjög mikilvægt sé að vanda til verka þegar svona mál eru til meðferðar í þinginu.