153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

aukinn fjöldi andláta á Íslandi.

[15:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra. Í síðustu viku birtist á heimasíðu Hagstofunnar, undir liðnum tilraunatölfræði, frétt þar sem teknar voru saman upplýsingar um tölu látinna á Íslandi, dauðsföll hér á landi. Morgunblaðið sagði frá þessari frétt og Ríkisútvarpið sömuleiðis. Þarna kemur fram að umfram dauðsföllin séu 390 á síðasta ári miðað við meðaltal áranna 2017–2021, þetta er 17,1% hærra en meðaltal þessa tímabils.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi staðreynd og þessar upplýsingar hafi komið til umræðu á hans vettvangi. Þróunin er býsna afgerandi hvað þetta varðar og mér sýnist, eftir snögga skoðun á tölfræði landanna í kringum okkur, að við séum í efri mörkum hvað þessa þróun varðar. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að upplýsa okkur um hvort þessar staðreyndir hafi verið ræddar á hans vettvangi, hvað hæstv. ráðherra þyki um þetta og hvað ráðherrann telur líklegast að valdi þessari þróun hér heima.