Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:59]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Í fyrri ræðu var ég að gera umsögn Þroskahjálpar skil og því miður er ræðutíminn stuttur hérna við þessa umræðu, sem engu að síður er mjög löng, ákveðin þversögn þar á ferð. En með leyfi forseta langar mig að halda áfram lestrinum og reyna að gera þessari umsögn skil. Ég held þá áfram þar sem frá var horfið:

„Undanfarið ár hafa Landssamtökin Þroskahjálp fengið til umsagnar og skoðunar æ fleiri mál sem varða fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd og fjölskyldur þeirra. Fullt tilefni er til að ætla að meðferð slíkra mála sé oft ekki í samræmi við þær skyldur sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og íslenskum lögum. Á meðal þeirra atriða sem ekki eru uppfyllt í mörgum tilvikum í umræddum málum er sú afdráttarlausa og augljósa skylda, sem leiðir af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, að greina og túlka gögn og/eða vísbendingar um fötlun með atbeina sérfræðinga á því sviði, veita viðeigandi aðlögun við málsmeðferð og taka tillit til sérlega viðkvæmrar stöðu sem leiðir af fötlun þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.

Hvernig staðið var að brottvísun fatlaðs flóttamanns til Grikklands þann 4. nóvember sl. gefur því miður ekki tilefni til bjartsýni um að meðhöndlun umsókna fatlaðs fólks um alþjóðlega vernd hafi tekið breytingum til hins betra síðan Landssamtökin Þroskahjálp skiluðu síðast umsögn um breytingar á útlendingalögum. Þvert á móti hafa komið fram enn frekari vísbendingar um að meðferð umsókna og framkvæmd brottvísunar fatlaðs fólks af landinu, eftir að því hefur verið synjað um vernd, þarfnist gagngerrar endurskoðunar, sem Landssamtökin hafa lengi lýst sig reiðubúin til að taka þátt í og hafa í því sambandi vísað til samráðsskyldu stjórnvalda sem er áréttuð sérstaklega í 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og er svohljóðandi:

„Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Það eru samtökunum veruleg vonbrigði að breytingartillaga sú sem hér er til umfjöllunar skuli ekki fela í sér ákvæði um hvernig betur verði staðið að meðferð mála fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd til að mæta þeim skyldum sem á stjórnvöldum hvíla samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og íslenskum lögum, ekki síst rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi fyrir viðkomandi umsækjendur vilja samtökin því ítreka eftirfarandi: Upp geta komið og upp hafa komið tilvik þar sem umsækjandi um alþjóðlega vernd býr við „ósýnilega” fötlun, s.s. þroskahömlun og/eða einhverfu sem ekki upplýsist um fyrr en eftir að ákvörðun hefur verið tekin og/eða úrskurður hefur verið kveðinn upp í máli viðkomandi. Komi fram gögn sem benda til fötlunar hvílir sú rannsóknarskylda á stjórnvaldi að kanna hvort þau eiga við rök að styðjast og ef svo er, hvaða áhrif það hefur á niðurstöðu í málinu. Gera verður kröfu um að framlögð gögn og vísbendingar sem gætu bent til fötlunar séu metin af viðurkenndum aðila sem hefur þekkingu og forsendur til að lesa úr og leggja mat á slík gögn og hvaða þýðingu þau hafa.

Í ljósi þeirra mikilsverðu hagsmuna sem eru í húfi er mikilvægt að tryggt sé að fötluðum umsækjendum sé veitt viðeigandi aðlögun …“

— Ég sé það, frú forseti, að mér mun engan veginn nægja þessi skammi ræðutími sem mér er skammtaður til að klára yfirferð yfir þessa umsögn og óska því eftir því að komast aftur á mælendaskrá.