132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Lög um fæðingarorlof – undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi.

[12:26]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við sjáum kannski á þeim tíma sem við höfum eytt í ræðustóli Alþingis talandi um störf þingsins hversu óhagkvæmur sá vettvangur er fyrir einhvers konar ígildi utandagskrárumræðu þar sem tvö mál hafa flækst hvort um annað þvert og mjög erfitt að halda fókus í þeirri umræðu.

Ég ætla að sleppa því að tala nokkuð um það mál sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hóf máls á þó það sé verulega þýðingarmikið mál en mig langar almennt til að segja nokkur orð um það mál sem varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar orðaði hér, um frumkvæði, dug, þor og kjark hv. þm. Marðar Árnasonar.

Almennt vil ég segja að mér brá í brún þegar ég sá að þetta frumvarp var komið út í gær. Mér þótti líkt og hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að mér vegið að hluta til, ég tók þetta pínu persónulega. Ég geri þá játningu að ég hringdi beina leið í formann Samfylkingarinnar sem starfar með okkur í samráðshópi um þessi fjölmiðlamál og lét í ljósi þá óánægju, að ég hefði ekki frumkvæði, dug, þor eða kjark til að fara hér upp um störf þingsins um málið, sá ekki ástæðu til þess.

Ég verð að segja út af orðum hv. þm. Marðar Árnasonar að hann hafi tekið af okkur sem störfum í fjölmiðlahópnum þetta ómak að orða þessa flóknu reglu um „must carry“ og „may carry“ þá held ég að þessir hæstaréttarlögmenn sem vinna með fjölmiðlahópnum og prófessorar við Háskóla Íslands í lögum hljóti að eiga eftir að þakka honum í framtíðinni fyrir að hafa tekið af þeim ómakið með að orða þessa einföldu hluti og setja þetta svona niður fyrir okkur. Ég sé því ekki annað en að við í þessum fjömiðlahópi sem sitjum þar við borð með hv. formanni Samfylkingarinnar getum litið til þessa plaggs og þá stytt okkur leiðina og þarf svo sem ekki að hafa neitt fleiri orð um það. Það á síðan eftir að koma í ljós hvort prófessor í lögum við Háskóla Íslands, Páll Hreinsson og Páll Vilhjálmsson lögmaður verði allsendis sammála hugmyndum hv. þm. Marðar Árnasonar um þetta mál en það kemur þá í ljós síðar.