132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Öldrunargeðdeild á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

481. mál
[13:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um öldrunargeðdeild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og spyr ásamt hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur hvort ráðherra telji þörf á að koma upp öldrunargeðdeild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og ef svo er, hvort uppi séu áform um að koma á slíkri deild, og þá hvenær.

Nú er hér á landi engin sérstök deild til fyrir aldraða geðsjúka, en sá hópur þarf sérhæfða þjónustu. Þeir hafa verið vistaðir á geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss og á öldrunarsviði sama spítala en sumir voru áður á Arnarholti. Þessir sjúklingar hafa verið að velkjast á milli þessara deilda. Þetta eru oft sjúklingar sem eiga ekki samleið með öðrum öldruðum og það gerir það einnig að verkum að hjúkrunarheimilin veigra sér við að taka við þessum sjúklingum þegar læknismeðferð er lokið. Þeir hafa verið að taka þá inn til bráðabirgða til að sjá hvernig gengur. En oftast hefur það ekki gengið.

Einhverjir þessara sjúklinga eru langveikir og dvelja heima með göngudeildarþjónustu frá geðsviði sem er gott á meðan það er hægt. En þegar þeir verða veikari eru þeir lagðir inn, annaðhvort á geðdeildina og taka þá upp endurhæfingarpláss, eða þeir lenda inni á öldrunardeildum vegna þess að oft hrjá þá ýmsir aðrir sjúkdómar, oft margir líkamlegir kvillar.

Ég er sammála því fagfólki sem telur að þörf sé á sérstakri öldrunargeðdeild, þ.e. meðferðardeild fyrir þessa sjúklinga og þá deild fyrir 18–20 manns sem bæði öldrunarsviðið og geðsviðið koma að. Svo þarf auðvitað að huga að hjúkrunarúrræðum fyrir þessa öldruðu geðsjúka því að þau eru engin. Þetta fólk þarf að vera sér því það truflar aðra vistmenn og sjúklinga. Það er því orðið mjög brýnt að leysa vanda þessa fólks. Það þarf ekki nema einn svona sjúkling til að koma öllu í uppnám.

Hæstv. ráðherra var spurður út í þessi mál fyrir þremur árum og sagði þá að núverandi fyrirkomulag væri skipulag sem fagfólk væri ekki ósátt við. Nú er annað uppi á teningnum. Fagfólk telur að það þurfi að sinna þessum málum betur. Það er ekki hægt að bjóða öldruðum sjúklingum og öldruðum geðsjúkum að dvelja saman á deild. Þeim finnst sér oft ógnað, bæði sjúklingum og aðstandendum þeirra.

Í nágrannalöndum okkar eru alls staðar reknar sérstakar öldrunargeðdeildir og sums staðar margar á sama spítalanum og þær eru taldar mjög nauðsynlegar. Hér er engin slík deild. Það er ekki eðlilegt, að mínu mati, í 300 þúsund manna samfélagi eins og okkar. Því spyrjum við hv. þingmenn:

Telur ráðherra þörf á að koma upp öldrunargeðdeild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og ef svo er, eru uppi áform um að koma á slíkri deild, og þá hvenær?