133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:35]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða um fátæk börn. Hins vegar er ákveðinn vandi við að finna hvar vandinn liggur því menn hafa notast við stærðfræðilegan mælikvarða sem er mjög slæmur og í raun bara mæling á tekjudreifingu, en enginn annar betri hefur fundist.

Gallar hans eru þeir að hann tekur mið af tekjum en ekki skuldum og eignum. Hann tekur fjármagnstekjur en ekki fjármagnsgjöld, sem er mjög stór galli. Hann tekur ekki mið af því að t.d. börn einstæðra mæðra í foreldrahúsum geta haft það mjög gott þó þau teljist vera fátæk samkvæmt könnuninni. Svo er það þessi þróun sem er um alla Evrópu, að hótel mamma hýsir fólk æ lengur, allt til þrítugs. Eftir því sem menn læra lengur á ævinni, þeim mun stærri verða hópar þeirra sem eru með lágar tekjur og eftir því sem menntunin verður meiri, þeim mun meiri verður tekjudreifingin hjá einstaklingum. Þeir verða þá með hærri tekjur seinna meir en lágar tekjur meðan á námi stendur. Því fjölgar fátækum börnum þegar menntunin verður meiri. Einnig má benda á að ef öll laun, tekjur og bætur tvöfölduðust að raungildi eru jafnmargir fátækir og nákvæmlega sami hópurinn.

Svo er líka einn galli í viðbót. Ef allir eru með 100 þús. kr. á mánuði, sem þykir ekki mikið, allir, hver einasti Íslendingur, í bætur eða laun, þá er enginn fátækur. Mælikvarðinn er því mjög gallaður.

Það hefur margt gerst frá 2004. Búið er að hækka barnabætur og stórminnka skerðingu bóta öryrkja. Það var gert núna fyrir jól, það hefur því margt verið gert.

Frú forseti. Ég vil undirstrika að það eru til fátæk börn á Íslandi, virkilega. (Gripið fram í.) Nei, þau koma ekki fram í skýrslunni. Það er nefnilega dálítið merkilegt. Ég ætla að færa rök fyrir því hvar þau er að finna eða ég tel að þau sé að finna. Þau er allt annars staðar.

Skuldsetning heimila er ógnvænleg. Að meðaltali er yfirdráttur einstaklinga í bönkunum 1 milljón á fjögurra manna fjölskyldu. Margir skulda ekki neitt á meðan aðrir skulda mjög mikið. Af þeim lánum þarf að borga vexti og afborganir. Upphæð á yfirdrætti er í reynd alltaf gjaldfallin. Þetta held ég, ásamt bílalánum og mikilli skuldsetningu, geri að verkum að jafnvel fólk með háar tekjur geti haft mjög lítið til ráðstöfunar í hverjum mánuði. Jafnvel þannig að það hefur ekki efni á mat.

Það er ekki bara þetta. Svo er nokkuð sem ekki má nefna á Alþingi, frú forseti, og það er óregla og fíkn. Ég var að spyrja að því hérna áðan meðal þingmanna hvað þeir teldu að margir væru fíklar og óreglumenn. Áfengisfíklar, eiturlyfjafíklar, spilafíklar. Börn allra þessara einstaklinga eru fátæk. Alveg sama hvaða tekjur foreldrarnir hafa. Alveg sama hvaða barnabætur þeir fá. Fíknin er svo dýr. Við leysum því ekki vandann með því að hækka barnabætur til þessa hóps. Fjöldinn í þessum hóp er umtalsverður. Sumir hafa nefnt eitt þúsund manns, aðrir hafa nefnt tvö þúsund. Ég veit ekki hvað þeir eru margir. En börnin þeirra líða fyrir fíknina. Ekki bara það heldur búa þau við óöryggi, peningaleysi, svik, vanrækslu og jafnvel ofbeldi. Þetta er vandinn sem við glímum við í dag og ég held að menn ættu að taka á því að glíma við þann vanda.

Mikilvægt er að menn gæti þess að hafa styrka stefnu í efnahagsmálum. Ekkert atvinnuleysi er núna. Það er gott fyrir fátæk börn. Laun hafa hækkað um 50% að raungildi. Það er gott fyrir fátæk börn. Lækkun skatta á einstaklinga, foreldra barnanna, það er gott fyrir fátæk börn. Við erum búin að minnka skerðingar á öryrkja þannig að þeir geta unnið meira. Það er gott fyrir fátæk börn. Við erum búin að hækka barnabætur heilmikið frá 2004, sem er líka gott fyrir fátæk börn.

En við þurfum að gæta að þeim hópi sem ég nefndi áðan, þ.e. börnum fíkla sem saklaus lenda í þeirri stöðu.