133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[18:09]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni tel ég ástæðu til þess að inn í umræðuna sé dregið álit óbyggðanefndar á réttindum Landsvirkjunar og hér segir um réttindi Landsvirkjunar samkvæmt lögum, með leyfi forseta:

„Loks tók óbyggðanefnd til almennrar skoðunar og eignarréttarlegs mats þau réttindi sem Landsvirkjun hafa verið fengin að lögum eða í samræmi við lög. Um þetta sagði m.a. svo í niðurstöðu nefndarinnar:

„Sá háttur hefur frá upphafi verið hafður á að mælt er fyrir um heimildir Landsvirkjunar til þess að reisa og/eða reka ákveðin raforkuver, aðalorkuveitur og til þess að gera, m.a. með mannvirkjagerð, nauðsynlegar ráðstafanir á viðkomandi vatnasvæði til þess að tryggja rekstur viðkomandi raforkuvers. Sýnist hin formlega lagalega tilhögun hvað þetta varðar hafa verið sú sama frá upphafi, sbr. 6. gr. laga nr. 59/1965, um Landsvirkjun, sbr. núgildandi lög um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með síðari breytingum, sem og samkvæmt lögum um raforkuver, nr. 60/1981, með síðari breytingum. Í annan stað hafa framkvæmdir þessarar gerðar útheimt sérstakt leyfi ráðherra og/eða ríkisstjórnar, áður en út í þær hefur verið ráðist. Þá hafa viðkomandi lög á hverjum tíma haft að geyma eignarnámsheimild til handa Landsvirkjun til þess að taka eignarnámi vatnsréttindi, lönd, mannvirki og önnur réttindi sem nauðsynleg séu til þeirra framkvæmda sem Landsvirkjun eru heimilaðar og ætlaðar lögum samkvæmt.“

Þá kemur fram að óbyggðanefnd hafi gert ítarlega rannsókn á viðkomandi lagaheimildum og í því sambandi kannað tiltæk lögskýringargögn, lagafrumvörp, greinargerðir og athugasemdir með þeim, ásamt því að fara yfir allar umræður um viðkomandi lagafrumvörp. Síðan segir:

„Í tilvitnuðum lögum og lögskýringargögnum er hvergi að finna áform í þá veru að stofna til hefðbundinna eignarréttarheimilda Landsvirkjun til handa að lands- og/eða vatnsréttindum. Með vísan til þeirrar rannsóknar er það mat óbyggðanefndar að með tilvitnuðum lagaheimildum hafi ekki verið stofnað til beinna eignarréttarheimilda í einkaeignarréttarlegum og stjórnskipulegum skilningi, sbr. og orðalag c- liðar 7. gr. laga nr. 58/1998, Landsvirkjun til handa, að fasteignaréttindum þeim sem liggja utan eignarlanda í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998. Um er að ræða nokkurs konar og að öðru leyti óskilgreindan nýtingarrétt, sem stofnað er til í skjóli valdheimilda íslenska ríkisins og á grundvelli fullveldisréttar þess. Þau réttindi sem mælt er fyrir um í tilvitnuðum lögum verða eðli málsins samkvæmt túlkuð með þröngum hætti. Aðild ríkisins og framsal í formi þeirra lagaheimilda er fólgið í fullveldisrétti, yfirráða- eða umráðarétti, en ekki stofnun eignarréttar í hefðbundinni og stjórnskipulegri merkingu.

Til frekari stuðnings þessari niðurstöðu vísast til þess að í upphaflegu lögunum um Landsvirkjun, nr. 59/1965, er beinlínis gert ráð fyrir því, sbr. t.d. 4. og 5. gr. laganna, sbr. 6. gr. þeirra, að Landsvirkjun séu lögð til ákveðin eignarréttindi, þar með talin vatnsréttindi, en það er gert með einkaeignarréttarlegri tilvísun til sameignarsamningsins, þar sem afhent eru þau réttindi sem af hálfu ríkisins höfðu verið keypt af skilanefnd a/s Titan, sbr. 3. tölul. A-liðar 2. gr. samningsins. Samanburður á 4. gr., 6. gr. og 18. gr. laga nr. 59/1965, styður eindregið þá niðurstöðu að lögbundnar heimildir til handa Landsvirkjun til þess að reisa og reka raforkuver ásamt nauðsynlegum búnaði og tilfæringum, svo sem aðalorkuveitum, verði ekki skýrðar svo að með þeim heimildum hafi verið tilætlan löggjafans að stofna til hefðbundinna einkaeignarréttarlegra heimilda í skilningi 72. gr. stjórnarskrár. Hefði tilætlan löggjafans verið sú var engin þörf á því að kveða á um yfirfærslu þeirra eignarréttinda sem ríkið var komið að fyrir einkaréttarlega samninga, sbr. 4. gr. laganna né að mæla fyrir um sérstaka eignarnámsheimild skv. 18. gr. laganna. Þá má enn fremur benda á tilhögun hinna yngri lagaheimilda, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1981, um raforkuver, þar sem kveðið er á um heimildir ríkisins til þess að semja við Landsvirkjun um að reisa og reka virkjanir í Blöndu í Blöndudal, Jökulsá í Fljótsdal og Héraðsvötnum við Villinganes. Allt að einu sömdu íslenska ríkið og Landsvirkjun um það, sbr. 3. gr. samningsins frá 11. ágúst 1982, að áður en rekstur hverrar virkjunar hæfist skyldi gera sérstakt samkomulag um greiðslur til handa ríkinu vegna þeirra vatnsréttinda sem væru í umráðum ríkisins, hvort sem væri vegna lögbýla í eigu ríkisins, annarra eignarlanda eða vegna vatnsréttinda á almenningum og afréttarlöndum. Var réttur ríkisins til gjaldtöku vegna þessa staðfestur með dómi Hæstaréttar frá 29. mars 2001 í málinu nr. 413/2000: Landsvirkjun gegn íslenska ríkinu.

Af þessu má ráða að í lagaheimild til byggingar og reksturs virkjunar, aðalorkuveitu og/eða til framkvæmda og mannvirkjagerðar á viðkomandi svæði, felst ekki tilætlun um stofnun eignarréttarlegra heimilda að vatni, landi eða öðrum fasteignaréttindum. Landsvirkjun er því hvorki eigandi vatns- eða landsréttinda í skilningi 1., 2. eða 7. gr. laga nr. 58/1998, sbr. og 2. gr. og 49. gr. vatnalaga í þeim tilvikum að heimildir fyrirtækisins styðjast eingöngu við lagaheimildir og leyfum veittum á grundvelli þeirra. Íslenska ríkið er eigandi umræddra fasteignaréttinda, vatns- og landsréttinda, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 58/1998. Ótvírætt er að Landsvirkjun er eigandi þeirra mannvirkja og framkvæmda sem fyrirtækið hefur byggt og komið fyrir á umræddum svæðum. Hvað þau mannvirki varðar, þar með talið vegi, varnargarða, skurði, uppistöðulón, vatnsmiðlunarmannvirki o.fl., er það að segja að þó svo fyrirtækið sé eigandi mannvirkjanna og framkvæmdanna sem slíkra þá á það ekki beinan eignarrétt að því landi sem þær standa á né að því vatni sem nýtt er til orkuvinnslunnar.

Eins og að framan er rakið hefur löggjafinn í skjóli valdheimilda sinna veitt Landsvirkjun með lögum, ákveðinn en þó óskilgreindan nýtingarrétt á svæði því sem um ræðir í máli þessu. Samkvæmt c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998 er það hlutverk óbyggðanefndar að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Þau sérstöku réttindi sem löggjafinn hefur veitt Landsvirkjun falla í öllum meginatriðum utan þeirrar hefðbundnu eignarréttarlegu skilgreiningar sem liggur nefndu lagaákvæði til grundvallar, sbr. og skilgreiningu eignarréttinda skv. 1. gr. laga nr. 58/1998. Með lögum nr. 58/1998 hefur nú verið stofnað til eignarréttar íslenska ríkisins að öllu því landi sem við gildistöku laganna var eigendalaust og ríkið fer með viðkomandi eignarheimildir í samræmi við 2. kafla laga nr. 58/1998. Lögtaka laganna hafði þannig grundvallarbreytingu í för með sér á hefðbundinni eignarréttarlegri stöðu Landsvirkjunar á þeim landsvæðum. Það er hins vegar á færi til þess bærra handhafa ríkisvalds að mæla nú nánar fyrir um og/eða skilgreina frekar réttarstöðu Landsvirkjunar að breyttri réttarskipan.““

Hvernig á að gera það? Auðvitað með því að láta þau réttindi sem færð eru Landsvirkjun í hendur vera í fullu samræmi við þá samninga sem voru gerðir á sínum tíma og þau lög sem sett voru til handa Landsvirkjun til að nýta þessi réttindi. En ríkisstjórnin ætlar ekki að gera það. Hún ætlar að ganga lengra. Hún ætlar að láta Landsvirkjun í té eignarrétt á löndunum til viðbótar við þau réttindi sem um var fjallað. Óbyggðanefnd hefur skoðað þetta mál niður í kjölinn og þetta er niðurstaða hennar. Þegar menn lesa það sem ég fór yfir þá hljóta menn að sjá að ríkisvaldið er að ganga mun lengra en eðlilegt er hvað þessa hluti varðar fyrir utan það að hér ætla menn að taka þá ákvörðun í fyrsta sinn í sögunni að breyta þjóðlendu í séreignarland.