136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[13:52]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir annarra þingmanna og þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að taka upp þessa mikilvægu umræðu, um vanda smærri fjármálafyrirtækja í kjölfar bankahrunsins. Í því samhengi ætla ég að nefna þrjú atriði.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að hér verði áfram rekstrargrundvöllur fyrir smærri fjármálafyrirtæki. Þjónusta þeirra eykur valkosti neytenda og þau veita stóru bönkunum verðuga samkeppni.

Í öðru lagi þarf að leysa þann vanda sem tengist viðskiptum þessara smærri fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Eins og fram hefur komið höfðu mörg þessara smærri fjármálafyrirtækja gegnt milligönguhlutverki fyrir stærri bankana í aðdraganda bankahrunsins. Ég ætla ekki að fara nánar í þau mál en það þarf engu að síður að finna viðunandi lausn á þessum vanda til að unnt verði að bjarga verðmætum að svo miklu leyti sem það er mögulegt og þá þannig að gætt sé bæði jafnræðis og gagnsæis. Vandinn blasir við. Það eru miklir fjármunir sem um er að ræða. Hæstv. viðskiptaráðherra nefndi 300 milljarða kr. í þessu samhengi. Vandinn er óleystur og hann kallar á skynsamlega lausn.

Í þriðja lagi þarf að huga sérstaklega að málefnum sparisjóða og aðlögun þeirra að breyttum aðstæðum. Eins og hæstv. viðskiptaráðherra nefndi mun seinna í dag, ef ég skildi hann rétt, verður sérstaklega greint frá aðkomu ríkisins að sparisjóðunum og þá sjáum við vonandi betur hvernig þeim reiðir af eða hver tækifæri þeirra verða í nánustu framtíð.