139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs í tilefni af alvarlegum fregnum sem berast frá byggðarlaginu Flateyri við Önundarfjörð þar sem stærsti atvinnurekandi staðarins hefur verið úrskurðaður gjaldþrota og tugir einstaklinga hafa þar með misst atvinnu sína. Þetta er enn eitt reiðarslagið fyrir atvinnulífið á staðnum, enn eitt áfallið fyrir fyrrum blómlegt sjávarpláss.

Fiskvinnslufyrirtækið Eyraroddi var sett á stofn til að bjarga byggðarlaginu þegar útgerðarmaðurinn á staðnum seldi allan sinn kvóta og flutti suður fyrir þremur árum. Þar með runnu 90% af aflaheimildum byggðarlagsins út af svæðinu og síðan hafa menn reynt að halda uppi fiskvinnslu á staðnum með því að kaupa fisk og leigja kvóta en sú viðleitni er nú orðin gjaldþrota. Hér sjáum við afleiðingar kvótakerfisins í hnotskurn, aflaheimildir hafa safnast á fárra hendur, sem láta ekkert laust. Kerfið er lokað fyrir nýliðum, það býður ekki upp á atvinnufrelsi og kvótalaus fyrirtæki eins og Eyraroddi visna upp.

Flateyri liggur nálægt gjöfulum fiskimiðum sem gætu orðið fólkinu þar til lífsbjargar en þann fisk má ekki veiða. Hér hefðu frjálsar handfæraveiðar hjálpað upp á sakirnar og þá meina ég alfrjálsar handfæraveiðar smábáta.

Frú forseti. Það má ekki dragast lengur að koma á gagngerum breytingum á fiskveiðistjórnun okkar. Kerfið er að kyrkja byggðirnar. Það meinar þeim sem búa á staðnum að bjarga sér sjálfir og Flateyri er ekki eina dæmið um byggðarlag í hættu. Ofan á annað bætist að boðaðar hafa verið fleiri uppsagnir með fyrirhugaðri lokun elliheimilisins Sólborgar, stofnunar sem veitir nauðsynlega nærþjónustu. Af því tilefni vil ég minna á markmið stjórnvalda, sem áður var í hávegum haft, (Forseti hringir.) um störf án staðsetningar, það gætu verið bráðabirgðaaðgerðir til að hjálpa upp á sakirnar.