139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

umhverfisábyrgð.

299. mál
[16:12]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er rétt að láta falla nokkur orð í tilefni af þessari framsögu og því að á þing skuli frumvarp til laga um umhverfisábyrgð vera komið í umræðu og þá til umhverfisnefndar að henni lokinni. Þetta er áfangi í því að byggja upp umhverfisrétt sem hefur gengið hægt en nokkuð örugglega hin síðustu missiri og vonandi þannig að allir séu sáttir við og tileinki sér þær meginreglur og þá hegðun sem rétturinn býður.

Hér er verið að innleiða með markvissum hætti mengunarbótaregluna í réttinn og gera töluverðan lagabálk um ýmis atriði sem nú eru fremur óljós og menn hafa ekki sinnt mjög, talið sig hingað til hafa rétt til hvers konar framkvæmda og athafna án verulegs tillits til umhverfisins í þeim krafti að maðurinn lifi fyrir sjálfan sig og á eigin forsendum og þurfi ekki að taka tillit til skepnunnar eða hvers annars sem skapað er í heiminum meira en honum sýnist og gleymir hann því þá um leið að þær kynslóðir sem á undan voru hafa einmitt byggt í hag fyrir þá sem nú lifa með tilliti til þess sama umhverfis og náttúru og honum er skylt að gera það sama gagnvart þeim kynslóðum sem eftir hann koma.

Ég ætla ekki að fara í málið að öðru leyti en að þakka fyrir framsöguna og þá vinnu sem hefur verið í þetta lögð. Ég vil þó spyrja vegna síðasta kaflans í ræðu hæstv. ráðherra hvað í frumvarpinu fari fram úr lágmarkskröfum tilskipunarinnar sem frumvarpið byggist á. Er það það eitt að krafa sé gerð um ráðstafanir til að eyða mengun og endurheimta fyrra ástand lands, sem manni finnst einhvern veginn alveg sjálfsagt, eða er það eitthvað fleira? Það er önnur spurningin. Hin er þá kannski sú sem ráðherra kom ekki inn á en er rakin í greinargerðinni eða athugasemdunum, að fyrirvari hafi verið gerður af Íslands hálfu um ákveðna þætti tilskipunarinnar sem varðar skilgreiningu á vernduðum tegundum og vistgerðum sem falla ekki undir EES-samninginn heldur mundu falla undir þær reglur sem við þyrftum að undirgangast við aðild að hinu blessaða Evrópusambandi, sem mundi reyndar marka mikil framfaraspor í umhverfismálum á Íslandi. Ég veit ekki hvort ráðherra getur svarað þessu. Það stendur ekki til að taka hana í próf og spyrja hana út úr en ef það er hægt þá væri gott að það kæmi fram við 1. umr. hvaða mengunartjón það er á lífríkinu sem ekki fellur fyrir fram undir þessi lög vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa gert fyrirvara við tilskipunina í því efni.

Að öðru leyti fagna ég frumvarpinu og hlakka til að eiga við það með félögum mínum í hinni háu umhverfisnefnd.