139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er alltaf svo gaman að verða vitni að því þegar mismunandi skoðanir á stjórnarheimilinu birtast með svo glöggum hætti eins og gerðist hérna rétt áðan. Hér talar hæstv. utanríkisráðherra bara mjög fjálglega um Magma-fjárfestinguna, að það sé erlend fjárfesting. Ég gat ekki betur heyrt en að hann teldi hana ekki óalandi og óferjandi. Þess vegna spyr ég, kannski nota tækifærið fyrst við eigum þess kost að vera í skoðanaskiptum: Hvað finnst hæstv. utanríkisráðherra um eignarnámshótanir, bæði hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra? Hvað finnst hæstv. utanríkisráðherra, sem á í erlendum samskiptum upp á hvern dag vænti ég í hans mikilvæga starfi, um þau skilaboð sem þetta sendir út í umheiminn um að hér sé leikreglum breytt af handahófi og af pólitískum geðþótta í miðju kafi þegar leikurinn er löngu hafinn? Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því?

Það er alveg rétt að verðbólga er hér lægri og vextir eru lægri. Ég vil segja þrátt fyrir þessa ríkisstjórn. Ég vil líka segja: Þó það nú væri. Við erum búin að vera með hæstu vexti í heiminum þrátt fyrir að við höfum orðið fyrir þessu alvarlega hruni sem hér varð. Vextir hafa verið allt of háir allt of lengi. Sem betur fer eru þeir nú á niðurleið. Verðbólgan er líka á niðurleið en það er vegna þess að það er engin eftirspurn í samfélaginu. Það er hættulegt ef það fer að verða þannig að það leiði til stöðnunar. Það viljum við koma í veg fyrir. Við viljum blása lífi í glæðurnar. Við viljum koma þessu yndislega, ágæta samfélagi sem við höfum kost á að búa í af stað af fullum krafti. Það getum við vegna þess að við eigum auðlindir. Við eigum tækifæri. Við eigum menntað og duglegt mannafl. Og við eigum ekki að standa í þessum endalausu (Forseti hringir.) vörðuhleðslum í öllum góðum verkefnum.