139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Vestia-málið.

[17:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Forseti. Ég kem hér upp til að ræða utan dagskrár við hæstv. fjármálaráðherra um hið svokallaða Vestia-mál. Forsagan er einfaldlega sú að það var ljóst strax eftir bankahrun að bankarnir mundu þurfa að yfirtaka hin ýmsu fyrirtæki og að hér yrði mikið um eignatilfærslur. Við vissum það, höfum lært það af vinaþjóðum okkar sem hafa lent í sambærilegum hlutum, að það væri afskaplega mikilvægt að halda trausti á efnahagslífinu við þessar aðstæður. Það er ekki byggt nema með mjög skýrum reglum þannig að allir ættu að vita að hverju þeir gengju og að hér væri nokkuð sem er kallað gagnsætt ferli. Þess vegna stofnaði Landsbankinn Vestia-eignarhaldsfélagið sem átti að vera í fjarlægð frá bankanum og yfirtaka þau félög sem bankinn fékk. Og það gerði það. Það seldi í það minnsta tvö félög eftir samþykktum verklagsreglum sem voru birtar á heimasíðu Vestiu og höfðu m.a. fengið umfjöllun í viðskiptanefnd þar sem fleiri aðilar komu að því.

Þann 19. ágúst sl. birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem fram kom að fyrirtæki í Vestiu væru ekki til sölu. Þar var nefnt eitt fyrirtæki, Icelandic, en það var farið yfir það að það væri ekki til sölu 19. ágúst á síðasta ári frekar en önnur félög í eigu Vestiu. Þann 20. ágúst var þetta félag hins vegar selt Framtakssjóðnum og upphófst þá mikil gagnrýni, einfaldlega vegna þess að þarna var ekki farið eftir samþykktum verklagsreglum af heimasíðu félagsins. Reyndar voru verklagsreglurnar síðar teknar af heimasíðunni en það er annað mál.

Til að bregðast við þessari gagnrýni sagði m.a. hæstv. fjármálaráðherra þann 8. nóvember sl. að Framtakssjóðurinn mundi að sjálfsögðu fylgja þessum verklagsreglum þegar kæmi að því að þessi fyrirtæki yrðu seld. Það sama sögðu forstjóri Bankasýslunnar og forstjóri Landsbankans.

Það næsta sem við sjáum er að núna á þessu ári hefur Framtakssjóðurinn ákveðið að semja við einn aðila um kaup á Icelandic-fyrirtækinu sem hefur gengið mjög vel, svo það sé sagt af því að það skiptir máli. Uppbygging þess fyrirtækis hefur verið til fyrirmyndar og hafa orðið til mikil verðmæti úr fyrirtæki sem fyrir tveimur árum þótti vera gjaldþrota. Er það vel, en enn og aftur er ekki farið eftir verklagsreglum.

Annar flötur á þessu máli er sá að þegar fyrirtækin voru einkavædd, voru seld frá Vestiu yfir í Framtakssjóðinn, var ekki upplýst um verð þeirra. Ég sendi fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra þann 18. nóvember. Hann fékk svar frá Landsbankanum 3. desember sem hann dreifði hér í þinginu 17. janúar þar sem hann upplýsti að ekki yrði sagt frá kaupverðinu. Er það mikil frétt fyrir okkur sem horfum upp á það í þessari miklu einkavæðingu, hugsanlega er þetta stærsta einkavæðing Íslandssögunnar, að ekki eigi að upplýsa um kaupverðið. Er þetta uppskrift að því að búa til tortryggni og nýjustu heimildir eru þær að nú þegar séu menn farnir að bollaleggja um verðið.

Það er kaldhæðnislegt að þetta hafi komið upp sama dag og hæstv. forsætisráðherra lýsti því sérstaklega yfir hér í þinginu að það væri mikilvægt að ferlið, þ.e. salan á Vestiu yfir í Framtakssjóðinn, væri opið og gagnsætt og sama þegar salan væri frá Framtakssjóði yfir til annarra aðila.

Af þessum ástæðum vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra nokkurra spurninga. Hæstv. fjármálaráðherra sagði á Alþingi þann 8. nóvember orðrétt, með leyfi forseta:

„Í því sambandi er rétt að það komi fram að Bankasýslan mun í ljósi eignarhalds Landsbankans nú á Framtakssjóðnum beina þeim tilmælum til sjóðsins að hann viðhafi verklagsreglurnar eins og bankinn ætti í hlut þegar að því kemur að þessi fyrirtæki verða skráð eða einhver einstök þeirra seld. Þá kemur að þeirri sölu þar sem slíkar verklagsreglur eiga að sjálfsögðu að vera í heiðri hafðar.“

Af hverju stóðstu ekki við þessi orð?

Munt þú beita þér fyrir því að verklagsreglum verði fylgt eftir við sölu á fyrirtækjum kennd við Vestiu í Framtakssjóð eins og þú hefur lýst yfir?

Munt þú upplýsa um söluverð á þeim fyrirtækjum sem voru seld yfir til Framtakssjóðs frá Landsbankanum?

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég vek athygli á síðustu spurningunni. (Forseti hringir.) Ef menn ætla ekki að upplýsa um kaupverðið (Forseti hringir.) skulu menn aldrei aftur tala um opið og (Forseti hringir.) gagnsætt ferli.