140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

áætlun fjárlaga ársins 2012.

[11:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir að gera hér að umræðuefni stöðu ríkissjóðs og mikilvægi þess að hún sé í samræmi við áætlanir. Það að greina hættumerki á ferlinu, sem gæti gefið til kynna að okkur sé að bera af leið, er nauðsynlegt. Virkt eftirlit og aðhald hv. þingmanna með framkvæmdarvaldinu er liður í því að tryggja að kúrsinn sé haldinn. Engum gæti dulist að á síðustu þremur árum hefur náðst mikill árangur í ríkisfjármálunum, agaleysi var einkennandi hvað ríkisútgjöld varðaði á árunum fyrir hrun. Margar stofnanir fóru fram úr áætlun en fáir kipptu sér mikið upp við það því að tekjurnar urðu líka meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Allir starfsmenn ríkisstofnana hafa lagt hart að sér undanfarin þrjú ár til að ná því markmiði að ríkissjóður komist á réttan kjöl og einnig til að sjá til þess að þeir sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda verði ekki af henni þrátt fyrir aðhald og hagræðingu.

Stefnufestan er nú meiri hvað ríkisreksturinn varðar enda algjörlega nauðsynlegt í erfiðri stöðu og unnið er að lögum um opinber fjármál sem festa góð vinnubrögð í sessi. Samkvæmt fjárlögum 2012 mun afkoma í ríkisbúskapnum leiða til nærri 35 milljarða kr. skuldasöfnunar á árinu ef miðað er við greiðslugrunninn. Enn þá er því mikið verk óunnið við að koma ríkisfjármálunum í sjálfbært horf og markmið ríkisstjórnarinnar er að rekstrarafkoman skili afgangi árið 2014 og að heildarjöfnuður náist á næsta ári. Því er brýnt að beita ströngu aðhaldi á öllum sviðum og sporna við nýjum útgjaldatilfellum eins og framast er unnt.

Stöðvun skuldasöfnunar ríkissjóðs er nauðsynleg og því fyrr sem við komumst til þess að greiða niður skuldir því fyrr lækkar sá stóri gjaldaliður sem vaxtagreiðslur af lánum er en nú eru vaxtagreiðslur um það bil 18% af öllum útgjöldum ríkissjóðs.

Ef bráðabirgðaútkoma fyrir árið 2011 er rýnd kemur í ljós að á heildina litið eru frávik frá áætlunum ekki mikil. Fyrir liggur hversu miklar tekjur hafa innheimst í ríkissjóð en skatttekjur urðu 30,9 milljörðum kr. meiri á árinu 2011 en í áætlun fjáraukalaga en hún er grundvöllur að tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 2012.

Tekjuskattur einstaklinga og tryggingagjöld eru 1,7 milljörðum kr. meiri en áætlað var og má gera ráð fyrir jákvæðum grunnáhrifum þar. Langstærsta einstaka frávikið í jákvæða átt er þó í sköttum á fjármagn og hagnað lögaðila, um 5,8 milljarðar kr. Þar er um óvissu hins vegar að ræða sem erfitt er að líta á að hafi grunnáhrif til næstu ára.

Grunnáhrif eru þó sterkust í óbeinum sköttum, en bráðabirgðatölur gefa til kynna að þeir séu undir áætlun 2011 sem liggur alfarið í virðisaukaskatti. Aðrir skattstofnar sýna minni frávik, bæði til hækkunar og lækkunar, sem jafnast nokkurn veginn út. Þegar allt er lagt saman í þessari bráðabirgðaúttekt er þess þó tæpast að vænta að útkoma síðasta árs muni lyfta tekjugrunni yfirstandandi árs sem neinum fjárhæðum nemi frá því sem reiknað var með í tekjuáætlun fjárlaga 2012 þótt niðurstaðan sé að einhverju leyti jákvæð.

Þegar bráðabirgðatölur gjaldaliðanna er skoðuð virðast rekstrargjöldin fara þó nokkuð fram úr áætlun, um 4,5 milljarða kr. Það er of há upphæð en frekari greining stendur nú yfir og hugsanlega verður endanleg niðurstaða lægri og vera kann að um misræmi í bókhaldslegri framsetningu sé að ræða að einhverju marki.

Engin teikn eru á lofti um að fjárlög fyrir árið 2012 standist ekki, enda mikið í húfi fyrir þjóðarbúið og velferð í landinu. Við höfum ekki enn frá hruni náð að láta tekjur og gjöld falla saman enda gatið stórt sem myndaðist af völdum efnahagshrunsins og aukum því við skuldasöfnun ríkissjóðs hvert ár hallareksturs. Áætlanir til ársins 2015 gera ráð fyrir að niðurskurður á árinu 2013 verði um 5 milljarðar kr. Hættan er sú að ef við stofnum til nýrra útgjalda á árinu 2012 sem rúmast ekki innan fjárlaga að niðurskurður þurfi að vera meiri með tilheyrandi sársauka, einkum fyrir þá sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda, eða að skattar hækki.

Vegna þess hve stutt er liðið á árið er ómögulegt að segja til um hvernig það muni enda en þó er ljóst að í meðförum þingsins á tekjuhlið ársins 2012 voru skatttekjur lækkaðar frá því sem áætlað var um 500 millj. kr. og nýfallinn dómur kjararáðs kallar á útgjöld sem nema um það bil 450 millj. kr. Það þarf að finna leiðir til að brúa það sem upp á vantar þarna og síðan er óvissa um uppgjör við SpKef og eftir á að greina áhrif (Forseti hringir.) nýfallins dóms um gjaldeyrislánin, en það mun þá skýrast á næstu dögum.