140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

áætlun fjárlaga ársins 2012.

[12:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum náð miklum árangri í ríkisfjármálum á undanförnum þremur árum. Um það er ekki deilt, en við erum ekki komin alla leið. Auka þarf aga í ríkisrekstri, ég tek undir það með hv. þingmönnum sem um það hafa fjallað og einnig vil ég taka undir með þeim hv. þingmönnum sem mæla með vandaðri áætlanagerð.

Stjórnvöld munu ekki víkja frá áætlunum sé þess nokkur kostur. Það er hagur allra að endar nái saman og að skuldasöfnun ríkissjóðs stöðvist. Hrunið birtist meðal annars í mjög harkalegum, neikvæðum viðsnúningi í ríkisfjármálum, en áætlanir um ríkisbúskapinn fyrir árin 2012–2015 sýna hvernig snúa má stöðunni aftur þannig að hún verði jákvæð. Umtalsverður hallarekstur ríkissjóðs leiðir hratt til ófarnaðar og gerir skuldastöðuna ósjálfbæra. Viðvarandi hallarekstur kallar á frekari lántökur og þar með aukinn vaxtakostnað fyrir ríkissjóð, sem að endingu yrði að mæta með enn harkalegri niðurskurði eða öðrum aðgerðum síðar.

Hagspár ásamt greiningum á afkomu ársins 2012 munu þegar lengra er á árið liðið verða síðan grundvöllur endurskoðunaráætlunar fyrir árið 2013. Ég mun leggja fram skýrslu til umræðu í þinginu í maí næstkomandi þar sem færð verða rök fyrir forsendum fjárlaga 2013 og ég vænti góðrar þátttöku hv. þingmanna í þeirri umræðu. Þá höfum við gögnin fyrir framan okkur sem raunhæft má telja að byggja megi á fyrir árið 2013. En ef marka má umræðuna í dag er að vænta mikils stuðnings meðal þingmanna allra flokka um að halda aðhaldsmarkmiðin og að við náum góðum árangri með ríkisbúskapinn.