143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

277. mál
[18:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður veit af reynslunni legg ég öllum góðum málum lið og hv. þingmaður hefur a.m.k. möguleika á að sannfæra mig betur um gildi þessarar tillögu. Stundum verð ég undrandi á hv. þingmanni. Ég er algerlega sammála honum um þessi lög sem tóku gildi 1998, þau voru ólög. En mér kemur það svolítið á óvart að hv. þingmaður skuli leggja sitt hald og traust á félaga okkar í þessum þingsal, hv. Vigdísi Hauksdóttur, þegar kemur að auðlindum. Ég tel að hv. þingmaður eigi að muna forsögu þess ágæta flokks sem hún tilheyrir varðandi auðlindir, sérstaklega vatnið af því að hv. þingmaður hefur gert það að umræðuefni — við tókum einu sinni saman frægan slag í þeim efnum og höfðum betur — og miðað við það ætti hann með fullri virðingu fyrir öllum hlutaðeigandi að vanda valið betur á stuðningsmönnum sínum í þessu máli.

Að öðru leyti er ég þeirrar skoðunar að það sem fyrir hv. þingmanni vakir sé annað en kannski það sem hann endilega hefur verið að tala um. Ég segi það hins vegar hreint út, af því að ég hef stundum reynt að taka mér hv. þingmann mér til eftirdæmis að því leytinu til, að ræðan á að vera já, já og nei, nei. Hann á bara að segja það opið hvað fyrir honum vakir. Vandamálið er bara eitt sem hann er að glíma við og ég hef fullan skilning á því; það eru kaup þess kínverska manns sem við höfum nefnt hér fyrr í umræðunum á landi á norðausturhorninu. Það vandamál sem hv. þingmaður er að teikna hér upp að það sé einhvers konar útbreiddur vandi að útlendingar að öðru leyti séu að ásælast hér jarðir — ég hafna því. Því var spáð þegar við gengum í EES. Nú höfum við 20 ára reynslu og svo er ekki.