146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum kærlega fyrir framsöguna og tek undir að það er einkar ánægjulegt að sjá þetta mál koma hingað inn. Ég ætla að fylgja eftir fyrirspurnum sem ráðherra var að svara mjög skýrt, að búið væri að gera ráð fyrir kostnaðinum í fjármálaáætlun sem við erum að fjalla um núna í nefndum þingsins, og vitna þá í umsögn Reykjavíkurborgar sem er það sveitarfélag sem hefur mesta reynslu af notendastýrðri persónulegri aðstoð og annarri þjónustu sem er verið að innleiða í lögum. Þar segir að Reykjavíkurborg hljóti að gera þá kröfu að ríkið tryggi í nýrri fjármálaáætlun fulla fjármögnun þjónustu við fatlað fólk í samræmi við þjónustukröfur sem settar hafa verið og raunverulegan kostnað við að veita þjónustuna. Ég hef átt svolítið erfitt með að skilja hvernig það geti gengið upp að kostnaður við samningana eigi að lækka yfir það tímabil sem fjármálaáætlunin nær yfir þegar mikill þrýstingur er á aukin framlög frá ríkinu og á að greiða meira á tíma (Forseti hringir.) fyrir NPA-þjónustu. Hvernig gengur það eiginlega upp?