146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[21:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Ég er einn af þeim nefndarmönnum sem skrifa undir þetta álit. Eins og fram hefur komið skilar nefndin sameiginlegu áliti. Einhugur var í nefndinni um þessar breytingartillögur og það sem við setjum hér niður. Ég vona svo sannarlega að þetta sé það fyrsta af mjög mörgum nefndarálitum sem ég get skrifað undir sem er sameiginlegt nefndarálit allra úr nefndinni. Eins og fram hefur komið fengum við fjölda umsagna; 50 umsagnir bárust um frumvarpið. Það verður að segjast eins og er að okkur í hv. umhverfis- og samgöngunefnd leið á tímabili þannig að eftir því sem fleiri gestir kæmu og fleiri umsagnir bærust þá flæktist málið og yrði stærra og meira.

Hér er um innleiðingarfrumvarp að ræða og því mjög mikilvægt að við náum að afgreiða það. Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur sambærilegt frumvarp áður dúkkað upp hér á þingi sem ekki náðist að afgreiða og sambærilegt frumvarp hefur áður farið til umsagnar frá ráðuneytinu þó að ekki hafi náðst að leggja það fram hér. Ég held að þetta sé þriðja tilraunin. Allt er þá þrennt er og vonandi náum við að klára þetta ágæta mál hér.

Einkarétturinn var eitt af því sem við ræddum hvað allra mest. Mikill samhljómur var í nefndinni um mikilvægi almenningssamgangna. Kannski aðeins út af því að umræðan áðan barst að nauðsyn þess að gera sérstök lög um almenningssamgöngur og út af því sem við skrifum hér; ég held að við í nefndinni höfum verið sammála um að ekki væri í boði að gera ekki neitt og því væri mjög mikilvægt að afgreiða frumvarpið með þeim breytingartillögum sem við lögðum til þó að við yrðum vör við það á leiðinni að jafnvel væri ástæða til að gera enn meira. En í staðinn fyrir að tefja þetta hugsuðum við: Borðum fílinn í nokkrum bitum, og að þetta væri bara góð byrjun.

Ég vona að með frumvarpinu og með nefndarálitinu tökum við af allan vafa um mikilvægi einkaleyfis í almenningssamgöngum eins og það hefur verið útfært. Við erum ekki að tala um einkaleyfi opinberra aðila inn á markað þar sem ríkir samkeppni, heldur þar sem hana hefur skort og við erum að tryggja að almenningssamgöngur geti verið í gangi allt árið. Þá vil ég árétta það, sem kemur hér í 2. gr., að þó að það sé ekki beint skylda þá er það æskilegt og er þannig í langflestum tilfellum. Þó að Samtök sveitarfélaga hafi einkaleyfi til að skipuleggja almenningssamgöngur eru það einkaaðilar sem eru að keyra. Það er ekki eins og opinberir aðilar séu að keyra eða eigi bílana eða ráði starfsmenn. Ég held að það sé mikilvægt að fólk hafi það í huga. Hér er fyrst og fremst verið að hugsa um almannahagsmunina sem felast í því að skipuleggja almenningssamgöngur.

Langflestar athugasemdirnar sem við fengum lutu að stærð bílanna. Ágætlega hefur verið farið yfir það. Ég er mjög sátt við þá leið sem við förum hér varðandi ferðaþjónustuleyfið, sem er tillaga sem áður hafði komið fram í frumvarpsdrögum frá ráðuneytinu. Út af því að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem jafnframt er framsögumaður á þessu áliti, ræddi aðeins um stöðu leigubílstjóra, og hafði orð á því sem við segjum í nefndarálitinu, þá tek ég undir þau sjónarmið sem hann kom fram með; ég held að í framhaldinu sé nauðsynlegt að skoða það umhverfi. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að við séum hér með leigubíla, en það kann að vera að það regluverk sem er utan um það sé orðið barn síns tíma og þurfi að endurnýja með einhverjum hætti. Við erum ekki að taka á því í þessu frumvarpi. En við erum að opna á að ferðaþjónustuaðilar geti verið með minni bíla, en teljum okkur þó engu að síður vera að tryggja leigubílana með sinn einkarétt vegna þeirra krafna sem settar eru á það ferðaþjónustuleyfi.

Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur varðandi þá undanþágu sem við sameinumst um breytingu á og lýtur að málefnum fatlaðs fólks og aðgengi þess að farþegaflutningum, þ.e. að taka út orðin „rekstrarlega hagkvæman“. Þess ber samt að geta að í þeim gerðum sem við erum að innleiða er þetta orðalag alveg eins og stóð í drögunum að frumvarpinu. Við erum þá að ganga lengra en gert er ráð fyrir þar. Um mikilvægi þess erum við hjartanlega sammála.

Ég vil hnykkja á því að þetta er eitt skref; hv. þingmaður kom einmitt inn á það að við gerum þetta í skrefum. En næsta skref er mikilvægi þess að hugað sé að ferlimálum fatlaðra almennt. Nú er ég kannski sérstaklega að hugsa um höfuðborgarsvæðið og aðgengi að biðstöðum og annað þess háttar. Það er líka mjög mikilvægt málefni sem sveitarfélögin þurfa að huga sérstaklega að.

Mig langar aðeins að koma inn á refsiákvæði. Við vorum sammála því að taka út þetta með fangelsisvistina, en í umsögn Strætó.bs kemur fram ósk um að sett sé inn ákvæði sem lúti að því að hægt sé að sekta sérstaklega fólk sem er að reyna að svindla sér inn í strætó eða þess háttar. Slík ákvæði þekkjast mjög víða erlendis. Ekki var samhljómur í nefndinni um að setja eitthvað slíkt inn núna. Við töldum það aðeins of flókið á þessum tímapunkti. En ég hygg að þegar kemur að því að ræða frumvarp um almenningssamgöngur þá þurfum við að huga að því máli. Ég vildi einmitt hnykkja á því að það er rétt, sem fram hefur komið, og við segjum í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Nefndin tekur að hluta til undir þau sjónarmið og telur að á næstu árum, í tengslum við framþróun almenningssamgangna, …“

Þá erum við sérstaklega að vísa í borgarlínuna. Það kann líka að vera að það kalli á breytingar á umferðarlögum og þess háttar, okkur er ekki alveg ljóst hvernig sú þróun verður. En ég tel fyrir mitt leyti að á þeim tímapunkti kunni líka að vera ástæða til að horfa á einhvers konar sektarákvæði gagnvart því að svindla sér inn í almenningssamgöngur.

Það er annað sem þetta frumvarp tekur ekki á og ég vil halda til haga í umræðunni um almenningssamgöngur, og það er lögbundna hlutverkið. Sveitarfélögin hafa tekið þetta verkefni að sér í samstarfi við ríkið með sérstökum samningi þar um, en það er ekki lögbundið hlutverk þeirra. Sveitarfélögin setja engu að síður töluverða fjármuni í almenningssamgöngur.

Mér finnst full ástæða til að við höldum þessari umræðu á lofti, sérstaklega í ljósi þess að við erum að ræða fjármálaáætlunina. Þar er sérstaklega tekið á þessum þætti. Við erum með tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna. Það hefur skilað góðum árangri. Farþegum í strætó er að fjölga, en þeim mætti fjölga enn hraðar. Til þess þarf kannski öflugri tæki eins og borgarlínuna. Ég tel mikilvægt að við höfum það í huga hér, í allri umfjöllun um almenningssamgöngur, hver eigi að standa undir þessu hlutverki og hver eigi að kosta það. Þrátt fyrir ágæta ræðu hv. þm. Pawels Bartoszek, sem nefndi dæmi um almenningssamgöngur og þróun vestan hafs, þá er það nú þannig á langflestum stöðum, og á allflestum stöðum sem ég þekki til, að almenningssamgöngur eru niðurgreiddar af almenningi, niðurgreiddar af skattfé. Það er talið þjóðhagslega og umhverfislega mjög mikilvægt að standa undir slíkum samgöngum.

Vel kann að vera að í einhverjum tilfellum sé hægt að reka slíkt á samkeppnislegum grunni; oft þegar búið er að leggja í innviðakostnaðinn eins og þekkist í lestarkerfi í Evrópu og einhvern tímann getum við kannski horft til þess. Ég veit að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu horfa til þess að borgarlínan sem slík geti orðið sjálfbær rekstrarlega þegar búið verður að byggja upp innviðina. Það væri sannarlega óskandi að svo yrði.

Ég held ég hafi þetta ekkert miklu lengra, en mig langar að þakka framsögumanni og félögum mínum í nefndinni kærlega fyrir góð störf og ánægjuleg og formanni fyrir að halda vel utan um fundi okkar.