146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[22:27]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ágæt og skýr svör. Ég er ekki alveg sannfærður. Það truflar mig að það sé rof á milli sjálfræðis annars vegar og kosningarréttar hins vegar. Mér finnst það að minnsta kosti vera efni sem allsherjar- og menntamálanefnd getur velt fyrir sér. Ég heyri líka að hv. framsögumaður tekur undir að það þurfi þá að skoða önnur ákvæði þegar kemur að íbúakosningum. Ég fagna því. Við getum síðan fundið eitthvað sameiginlega fyrir áramót fyrir hina nítján ára þannig að sá afmælisdagur líði nú ekki án þess að menn vinni sér inn einhver réttindi. Það er nú bara svona til að hafa það huggulegt og hafa samræmi í þessu, að það séu alltaf einhverjir áfangar þangað til maður verður tvítugur.

En að öllum gamni slepptu tek ég undir meginmarkmið þessa frumvarps. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, ekki síður fyrir kjörna fulltrúa, að geta átt samtal við yngra fólk. Ég tek undir með hv. framsögumanni sem sagði í ræðu sinni áðan að ungt fólk væri nefnilega oft betur að sér en maður sjálfur í ýmsum efnum og hefði kannski áhuga á málum sem kæmu manni á óvart, ekki þeim sem maður hélt að maður gæti skautað léttilega í kringum og væru frekar léttvæg. Það er ekki þannig. Þetta unga fólk er þannig að ég hygg að hægt sé að halda því fram að við Íslendingar höfum líklega aldrei átt jafn glæsilegt fólk og nú er í skólum landsins.