148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

borgaralaun.

[16:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu áhugaverða efni. Hún nefndi áðan Thomas Paine sem upphafsmanns hugmyndarinnar um skilyrðislausa grunnframfærslu. Það er vissulega rétt, en það má segja að þessar hugmyndir hafi verið lengur til umræðu innan heimspeki og stjórnmála. Til að mynda hlýt ég að nefna Thomas More og frægt verk hans um útópíuna þar sem m.a. var reifuð sú hugmynd hvernig hægt væri að tryggja öllum skilyrðislausa grunnframfærslu eins og það heitir á nútímamáli þó að það hafi kannski ekki heitið það nákvæmlega hjá More í Útópíu.

Hv. þingmaður spurði þá sem hér stendur hvort hún hafi kynnt sér hugmyndir um borgaralaun. Já, það hef ég svo sannarlega. Alla 20. öldina hafa verið gerðar tilraunir á þessu sviði. Ég var að lesa þessa bók sem heitir einmitt Utopia for Realists og er eftir hollenskan fræðimann sem hefur skrifað áhugaverð fræðirit, m.a. um tilraunir sem hafa átt sér stað í Hollandi, en hann rekur söguna m.a. til Bandaríkjanna og Kanada á sjöunda áratugnum þar sem ráðist var í tilraunaverkefni um skilyrðislausa grunnframfærslu í tilteknum sveitarfélögum til að vega og meta hvort rétt væri að fara þá leið að afnema í raun þáverandi velferðarkerfi, ef við getum sagt það, og þá er ég auðvitað að tala um atvinnuleysisbætur, örorkubætur, ellilífeyri og allt það kerfi sem við höfum byggt upp, en ráðast í staðinn í slíka grunnframfærslu.

Málið náði það langt að Richard Nixon undirbjó lagafrumvarp um þetta mál sem náði hins vegar ekki fram að ganga. Þessi umræða er ekki ný af nálinni þó að hún hafi fengið aukinn þunga núna, ekki síst vegna þess sem hv. þingmaður nefnir hér sem er tæknivæðingin og hvaða áhrif hún muni hafa á störf okkar og líf. Umræðan um þetta er innlegg í mjög mikilvæga félagslega umræðu sem er í raun spursmálið um það hvaða breytingar komi í kjölfarið á fjórðu iðnbyltingunni.

Jeremy Rifkin hefur fært fyrir því rök í sinni bók sem heitir einfaldlega The End of Work að borgaralaun gætu reynst nauðsynleg af því að með aukinni sjálfvirknivæðingu og aukinni vélvæðingu muni vélar og tækni taka yfir fleiri og fleiri störf og draga úr eftirspurn eftir starfsmönnum, færri verði í vinnu hjá öðrum og fleiri muni skapa sér sína eigin vinnu. Þar eru mjög skiptar skoðanir um hver verði niðurstaðan. Menn hafa bent á að við höfum áður gengið í gegnum iðnbyltingar sem áttu að fækka störfum en fækkuðu ekki störfum í raun heldur urðu til annars konar störf, ný störf fyrir fólk. Þarna takast fræðimenn mjög á um hver raunveruleg áhrif verða.

Síðan hefur verið tekist á um það hvaða leiðir eigi að fara til að mæta því þegar hefðbundin störf tapast og hvort það skili sér í því að fólk skapi sér ný störf.

Rökin hafa líka verið þau að hin opinberu kerfi séu of flókin, þau séu hönnuð af sérfræðingum og snúist um að hafa vit fyrir fólki. Þarna hefur verið mjög heit pólitísk umræða þar sem tekist hafa á þeir sem hafa staðið fyrir því sem við getum kallað skandinavísku velferðarkerfin sem snúast um að byggja upp kerfi sem hvetji fólk m.a. til vinnu, að atvinnuleysisbótakerfið feli líka í sér hvata til vinnu, að við styðjum sérstaklega við þá sem alls ekki geta sótt sér vinnu, eins og öryrkja, og sá stuðningur sé með öðrum hætti en atvinnuleysisstuðningur, svo dæmi sé tekið, og að ákveðnir hvatar séu byggðir inn í kerfið, að þeir sem halda fram borgaralaunum segi þá að með því að afnema allt þetta kerfi spörum við peninga og getum á móti greitt öllum skilyrðislausa grunnframfærslu.

Þá kemur kannski að þyngstu gagnrýninni sem hefur verið höfð uppi á borgaralaunin sem er að ekki hafa verið settar fram raunhæfar leiðir um hvernig ætti að fjármagna borgaralaunin. Upplýsingaþjónusta Alþingis tók saman ágæta samantekt fyrir einu og hálfu ári eða svo, árið 2016, þar sem reynt var að áætla kostnað ríkissjóðs við að innleiða borgaralaun sem miðaðist við lágmarkslaunin 300.000 kr. sem búið var að semja um fyrir 2018. Sá kostnaður var metinn 1.200 milljarðar sem voru þá 128% af fjárlögum ríkisins eins og kemur fram í úttektinni. Á móti kemur að vitaskuld myndi sparast kostnaður við velferðarkerfið.

Stóru spurningarnar snúast um hvort borgaralaun myndu duga til framfærslu eða hvaða áhrif aðferðafræðin skilyrðislaus framfærsla myndi hafa á þá hópa sem veikast standa — ég sé að ég þyrfti 20 mínútur — til að mynda öryrkja og þá sem ekki geta sótt sér vinnu til viðbótar við þá framfærslu sem þeir hafa. Við þurfum að svara spurningunni: Myndi þeirra hagur versna við að allir fengju skilyrðislausa framfærslu? (Forseti hringir.) Um leið þurfum við að svara þeirri spurningu hvort þeir sem búa svo vel að vera jafnvel vellauðugir eigi að fá (Forseti hringir.) skilyrðislausa grunnframfærslu frá ríkinu eins og hugmyndafræðin gerir ráð fyrir.

Að lokum, herra forseti, myndi ég vilja segja að ég tel þetta áhugaverða umræðu, umræðu sem við þurfum að taka á vettvangi Alþingis. Ég sé fyrir mér að framtíðarnefnd gæti til að mynda tekið þetta mál til umfjöllunar (Forseti hringir.) og sett þessi álitamál fram með skipulegum hætti því að við þurfum að taka afstöðu til þeirra.