148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

borgaralaun.

[16:36]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að brydda upp á mikilvægri umræðu sem varðar jöfnuð, lífshætti okkar, dreifingu á byrðum og gæðum sem öll stjórnmál eiga kannski að snúast um.

Sjálfur er ég staddur í spurningarmerkinu miðju í þessu máli. Er óhjákvæmilegt að tæknin leiði til þess að störfum fækki svona stórkostlega í framtíðinni? Verða til ný sem við gerum okkur ekki enn í hugarlund? Þó að eitthvað sé tæknilega mögulegt er þar með sagt að það sé óhjákvæmilegt? Við vitum þetta sem horfðum ung á þáttinn Nýjasta tækni og vísindi í sjónvarpinu. Þurfum við ekki að viðhalda verklegri þekkingu sem er til staðar með einhverju móti?

„Að vinna eftir getu, taka eftir þörfum.“ — Þannig hljóðar mantra sósíalista af öllum sortum á öllum tímum um hið góða samfélag. Þetta er „hamingjudraumurinn“. Hér á landi hefur hins vegar sjálfsmynd fólks og hugmynd um gott og inntaksríkt líf verið bundin við dugnað og vinnu. Er hið raunverulega eftirlætisorð Íslendinga kannski ekki „ljósmóðir“ heldur „atvinnusköpun“?

Hvaða áhrif hefur það á fólk að vera á launum án þess að gera neitt annað en að vera til? Er það loksins frjálst til að sinna hugðarefnum sínum án tillits til þess hvort þau verði vara á markaði? Verður fólk ráðvillt og þunglynt þegar mikilsverður þáttur hverfur úr sjálfsmyndinni — að standa sig í vinnu, mæta á réttum tíma og skila sínu? Og hvernig á að fjármagna? Hver er borgarinn? Hvernig á að koma slíkri (Forseti hringir.) framfærslu á í samráði við verkalýðshreyfingu? Og hvaða áhrif hafa slík laun á velferðarsamfélagið og sameiginleg verkefni okkar við að útdeila byrðum og gæðum?