150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

sjúkratryggingar.

298. mál
[14:04]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þingmanni fyrir öfluga ræðu, mjög kjarnyrta ræðu, miklu betri ræðu en í rauninni framsöguræðan var af því að hún komst algjörlega að kjarna málsins, hvernig þetta er. Þetta er ólíðandi, þetta er óviðunandi og það sára er að við í þessum þingsal höfum haft tækifæri til að laga þetta, tækifæri til að breyta þessu, en þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast telja duga að skrifa eitthvert aflátsbréf í Morgunblaðið og koma síðan í þingsal og gera ekki neitt með það sem þau voru að skrifa um. Þau halda áfram að samþykkja þá ömurð sem framkvæmdin er á liðskiptum hér og öllu því og halda áfram að gútera það sem heilbrigðisráðherra er að gera á sínum vettvangi. Alþingi er ekki stimpilstofnun fyrir ríkisstjórnina. Við getum gert ýmislegt saman mun betur, en af því að þessi tillaga kemur ekki úr rétta ranninum er hún ekki tekin til greina. Við í Viðreisn höfum reynslu af því að þegar við leggjum fram frumvörp eru þau felld, mannanöfnin eða eitthvað annað, og korteri síðar mætir ríkisstjórnin með þau sem sín mál. Ég bind þess vegna vonir við það að ríkisstjórnin taki þetta upp, að m.a. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hætti að samþykkja þessa aðferð og leið sem heilbrigðisráðherra stendur fyrir. Sú leið er ávísun á biðlista og biðlistatíminn eykst og eykst.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þennan stuðning við málið. Það er mál sem ég veit að við munum sameinast um að reyna að ýta á í velferðarnefnd og reyna að fá aftur inn í þing af því að við getum ekki sagt fólkinu að bíða lengur og bryðja bara töflur.