150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

sjúkratryggingar.

298. mál
[14:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að okkur sé hlaupið kapp í kinn og ég er alveg sammála því að það skýtur svolítið skökku við að sjá Sjálfstæðisflokkinn kokgleypa það sem er að gerast hér, það niðurrif sem á sér stað fyrir allra augum um hábjartan dag í heilbrigðiskerfinu. Eins og hv. þingmaður veit er hér svokallað ríkisstjórnarsamstarf í gangi og það má á ýmsu ganga og ýmsu kyngja til að halda völdum og fína stólnum undir rassinum. Það er þannig sem ég skynja það.

Að öðru leyti segi ég: Betur má ef duga skal. Við skulum bara halda áfram. Það er alveg satt sem hv. þingmaður bendir á, hugsanlega verða þau búin korteri seinna að taka utan um málið og koma fram með það sem sitt eigið. Þá getum við líka bara verið glöð í hjartanu. Þá er okkar hugsjón náð, okkar barátta unnin og við vitum hvaðan gott kemur. Það er óskandi.

Einu sinni var fyrsta mál Flokks fólksins að afnema skatta og skerðingar af tækja- og lyfjakaupum fyrir fátækt fólk. Það var tekið utan um það mál af öllum, það varð ekki endilega ríkisstjórnarmál heldur varð það mál okkar allra. Því miður fer það samt þannig að þegar stjórnvöld eru góð við fátækt fólk og segjast vera að rétta því eitthvað, eins og í þessu tilviki að afnema skatta og skerðingar af styrkjum sem fátækasta fólkið þarf á að halda til tækja- og lyfjakaupa, tekst þeim einhvern veginn að ná því til baka annars staðar. Eftir stendur viðkomandi sjaldnast með einhverjar krónur aukalega í umslaginu, því miður. Það er ekki bara hvað lýtur að heilbrigðiskerfinu okkar.

Ég ætla að vona að ég eigi bandamann í hv. þingmanni í baráttunni gegn fátækt og því sem við erum að gera hér og er markmið okkar á þessu þingi, Flokks fólksins, að útrýma henni með öllu því að hún er ólíðandi.