151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

staða ferðaþjónustunnar.

[13:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það væri kannski áhugavert að vita hver viðbrögðin hafa verið við fyrirspurnum hæstv. ráðherra, eins og ráðherra kom inn á, þegar hann hefur kallað eftir upplýsingum um það hvernig þessa samræmis hefur verið gætt og þar fram eftir götunum. Ég hef fyrir framan mig tímalínu í samskiptum eins fyrirtækis við stjórnvöld. Það er ekki út af engu sem ég lít þannig á að það fyrirtæki hafi verið dregið á asnaeyrunum. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að skoða þessa þrautagöngu alla. Til viðbótar við að spyrja hver viðbrögðin hafi verið við fyrirspurnum ráðherra um samræmi í aðgerðum langar mig að bera fram spurningu sem hljóðar svo, með leyfi forseta: Hver telur ráðherra vera skynsamleg næstu skref hvað breytingar og mögulegar undanþágur varðar fyrir þau fyrirtæki sem blasir við að geta útfært þjónustu sína með þeim hætti að smithætta verði hverfandi og í öllu falli verði smitrakning eins einföld og hún getur orðið, komi smit upp?