151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

refsingar fyrir heimilisofbeldi.

[13:23]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Virðulegur forseti. Eitt það alvarlegasta sem blasir við okkur í kjölfar Covid-faraldursins er aukið ofbeldi í nánum samböndum. Það hefur aukist til muna nú á tímum samkomutakmarkana og aukinnar heimaveru. Herferð um vitundarvakningu í þessum málum og upplýsingatorg Neyðarlínunnar fyrir þolendur ofbeldis, sem sett var af stað í október, eru vissulega mikilvæg skref og aðgerðateymi gegn ofbeldi hefur skilað mörgum ágætum tillögum til úrbóta. En stærsta áskorunin sem blasir við okkur er að láta réttarkerfið virka fyrir þolendur ofbeldis því það gerir það svo sannarlega ekki eins og er. Nýtt ákvæði var sett í hegningarlög árið 2016 sem kveður á um ofbeldi í nánum samböndum, nánar tiltekið 218. gr. b, sem felur í sér 6–16 ára fangelsi fyrir slíka háttsemi. Þrátt fyrir það sjáum við endurtekið fréttir af sýknunum í heimilisofbeldismálum.

Í nýlegum dómi Héraðsdóms Reykjaness var maður sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi þrátt fyrir mjög sterkar sannanir, ekki af því að hann hafi ekki beitt ofbeldi heldur vegna þess að einungis var hægt að sanna eitt brot á manninn en ekki að brotin hefðu verið endurtekin. Röksemd dómstólsins er sú að ofbeldi þurfi að flokkast sem sérstaklega gróft eða vera endurtekið og viðvarandi til að hægt sé að sakfella fyrir brot í nánu sambandi.

Í öðru dæmi frá því á síðari hluta síðasta árs var maður sýknaður af ákæru um ofbeldi í nánu sambandi því sú sem hann réðst á var einungis kærasta hans og það féll ekki undir lýsingu ákvæðisins um hvað teljist náin sambönd. Ég vil gera ráð fyrir því að ráðherra finnist þetta ástand ekki réttlætanlegt fyrir þolendur ofbeldis og spyr því: Hvernig hyggst ráðherra bregðast við augljósum gloppum í lögum um heimilisofbeldi og hvernig hyggst ráðherra beita sér fyrir því að dómskerfið byrji að virka fyrir þolendur ofbeldis?