151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[15:15]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess sem er gert í öðrum málaflokkum en heyra undir hæstv. ráðherra og í málefnum barna. Ég er tilbúinn að sitja undir ýmissi gagnrýni í þingsal Alþingis en ekki þeirri að ríkisstjórnin sé ekki að gera mikið í málefnum barna. Það má gera meira, það er alveg hárrétt. En ég held að í seinni tíð sé ekki nokkur ríkisstjórn sem hefur ráðist í jafn stórar breytingar í málefnum barna og þessi er að gera. Ég talaði um það áðan að við værum búin að setja 80 milljónir á þessu ári til að vinna á biðlistum. Við erum að ráðast í grundvallarbreytingar á öllu velferðarkerfinu í málefnum barna með þessu frumvarpi, grundvallarbreytingar. Við erum að setja háar fjárhæðir í það á þessu ári að undirbúa þær breytingar, stærstu breytingar sem hafa verið gerðar í áratugi og hafa verið unnar hér í þéttu samstarfi allra þeirra sem veita börnum þjónustu undir forystu þverpólitískrar þingmannanefndar sem að hafa komið fulltrúar þingflokka á Alþingi og hefur leitt þessa vinnu. Við gerum ráð fyrir því að á næsta ári fari hátt í 2 milljarðar í nákvæmlega þessa vinnu, þ.e. að færa þjónustuna framar með það að markmiði að draga úr þriðja stigs þjónustu. Er hægt að gera meira í málefnum barna? Já. Er sá sem hér stendur sammála því að það ætti að gera meira í málefnum barna? Já. En er þessi ríkisstjórn að gera lítið í málefnum barna? Nei.