Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

upplýsingar um kaupendur Íslandsbanka.

[15:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Forseti. Í hvítbók um íslenskt fjármálakerfi segir m.a.:

„Heilbrigt eignarhald er mikilvæg forsenda þess að bankakerfið haldist traust um langa framtíð. Í því felst að eigendur banka séu traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs. Mikilvægt er að eigendur hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi.“

Til að fá slíka fjárfesta getur vissulega verið réttlætanlegt að gefa afslátt frá markaðsverði eins og gert var nú. Það er hins vegar óhætt að fullyrða að það gæti nokkurrar tortryggni eftir þessa síðustu sölu Íslandsbanka. Svo virðist sem nokkrir mjög litlir aðilar hafi verið handvaldir og boðið að kaupa með afslætti og auk þess heyrast sögur af því að erlendum aðilum sem keyptu í fyrsta söluferli og seldu strax aftur hafi verið hleypt aftur inn núna, sem sagt svokallaðir spákaupmenn. Við vitum ekkert hverjir þetta eru, af hverju þeir voru valdir frekar en aðrir, hvort þeir hafi ábyrgðarkennd eða fjárhagslega burði eða hvort þeir hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi eins og talað er um í hvítbókinni. Traust er mikilvægt sérhverju fjármálakerfi og það sem helst skapar vantraust er leynd og pukur í kringum mikla hagsmuni. Það er óásættanlegt að stærsti eigandi Íslandsbanka, íslenska þjóðin, fái ekki að vita allar staðreyndir málsins, ekki síst hverjir fengu að kaupa, á hvaða forsendum og af hverju þeir voru sérvaldir. Það blasir við, herra forseti, augljós spilling og einungis spurning hversu víðtæk hún er. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hvað ætlar hún að gera í málinu? Ætlar hún að láta þetta viðgangast?