Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Hér í 3. kafla greinargerðarinnar, undir yfirskriftinni Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi, er komið inn á möguleg áhrif eiginfjáraukareglna sem mælt er fyrir um. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á landsvísu er nú 2% og kerfisáhættuauki 3% og samanlagt hlutfall þeirra er því 5%, en sú samtala má ekki verða hærri án samþykkis fastanefndar EFTA-ríkjanna.“

Ber að skilja það svo að þetta setji takmarkanir á þau varúðartæki sem Seðlabankinn hefur undir höndum? Miðað við þennan texta eins og hann liggur fyrir hér þá virðist Seðlabankinn vera kominn í efstu mörk hvað eiginfjáraukana varðar án samþykkis fastanefndar EFTA-ríkjanna. Hefur verið lagt eitthvert mat á þetta? Í 4. kafla, samráðskaflanum, sé ég ekki neitt samráð við Seðlabankann tilgreint. Það útilokar þó ekki að það hafi átt sér stað. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort það sé réttur skilningur þessa texta að með þessu sé Seðlabankinn kominn í efstu leyfileg mörk hvað samtölu þessara þátta eiginfjárauka varðar.