Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar, í ljósi þess að hv. þingmaður hefur starfað töluvert mikið í alþjóðlegu umhverfi á sviði mannúðarmála og mörg slík verkefni eru á þeim stað að njóta umtalsverðs stuðnings risafyrirtækja af ýmsum gerðum, að spyrja í því samhengi hvort það séu letjandi áhrif sem koma fram á flæði stuðnings og styrkja frá stærri fyrirtækjum og stofnunum og eignarhaldsfélögum, eins og hér er fjallað um og þar fram eftir götunum, hvort hv. þingmaður telji að það verði viðbótarflækjustig við það að regluverk þyngist jafnt og þétt í fjármálaumhverfinu. Eða skiptir það litlu máli hvað það varðar að styrkjum sé stýrt til mannúðarverkefna, eins og ég veit að hv. þingmaður hefur unnið að erlendis? Því ég held að ef við horfum bara á Ísland og þetta míkróhagkerfi sem við höfum þá er það þannig að allur viðbótarkostnaður sem fellur á atvinnulífið með einum eða öðrum hætti dregur úr getu og mögulega vilja til að stýra fjármunum til góðra verka.