Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 22/2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

434. mál
[16:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þessa reglugerð frá EES. Hún hefði kannski mátt koma svolítið fyrr, ekki það að ég viti alveg hversu gömul; hún er frá EES sjálfu. Í greinargerð með frumvarpi sem mun fylgja eftir þessari reglugerð, frumvarpi til laga um peningamarkaðssjóði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, segir, með leyfi forseta:

„Á árunum 2007–2008 kom í ljós að ekki var alltaf hægt að standa við loforð um innlausnarskyldu og um að virði hlutdeildarskírteina myndi halda sér og leiddi það í mörgum tilvikum til mikilla innlausna af hálfu fjárfesta. Með ákvæðum reglugerðarinnar er leitast við að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig.“

Margir settu einmitt sína fjármuni í peningamarkaðssjóði, oft til skammtímafjármögnunar, þ.e. til að geyma peningana í stuttan tíma, sér í lagi vegna þess að þessir sjóðir voru taldir mjög öruggir. Eins og við sáum því miður í október 2008 var þetta ekki eins öruggt og menn héldu nema auðvitað fyrir þá aðila sem fréttu af því að hlutirnir væru kannski ekki alveg að fara í rétta átt og gátu leyst út á dögunum og vikunum áður en allt hrundi. Peningamarkaðssjóðir virka þannig að þeir veita skammtímafjármögnun til fjármálafyrirtækja, lögaðila og hins opinbera. Með öðrum orðum eru þeir að kaupa skuldabréf af þessum aðilum og reyna oftast að kaupa fjárfestingar í því sem kallast öruggar fjárfestingar þar sem áhættan er lítil. Á móti kemur að ávöxtunin er ekki mjög há en hún er eitthvað hærri a.m.k. heldur en að geyma peningana undir koddanum nema þegar kemur hrun. Þessari reglugerð er ætlað að tryggja meiri fjárhagslegan stöðugleika og auka vernd þeirra sem fjárfesta í slíkum peningamarkaðssjóðum. Sérstaklega á að passa upp á að ef álag er mikið á mörkuðum, eins og gerðist í október 2008, sé það ekki þannig að þeir sem síðast frétta af því að það sé að koma hrun og vilja taka peningana sína út úr þessum peningamarkaðssjóðum tapi meiru en þeir sem fengu að vita í gegnum vini og vandamenn að þarna væri nú kannski eitthvað að fara að gerast. Til þess að tryggja þetta allt er horft til þess að seljanleiki sjóðanna sé alltaf nægilegur til þess að hægt sé að leysa út — eða innleysa eins og það er kallað þó í rauninni sé verið að leysa peninga út úr sjóðnum — og farið var í að vinna reglur innan Evrópusambandsins um hvernig mætti gera þetta.

Innleiðing á þessari ákveðnu reglugerð hefur þau áhrif að íslenskum aðilum gefst kostur á að starfrækja og markaðssetja sjóði sína út fyrir landsteinana til landa á Evrópska efnahagssvæðinu og öfugt, að evrópskir peningamarkaðssjóðir geti markaðssett slíka sjóði hér á landi. Þetta opnar líka fyrir það að við getum fengið aðgang að fleiri peningamarkaðssjóðum en hefur verið mögulegt hingað til, kannski á öðrum vöxtum og öðrum mögulegum hlutum. Á sama tíma á að tryggja að það sé meira jafnvægi og meira öryggi í þessu, eða með öðrum orðum er hér verið setja reglur sem hjálpa okkur að passa upp á að það sem gerðist fyrir 14 árum síðan á Íslandi sé ekki eitthvað sem eigi eftir að gerast jafn auðveldlega og gerðist þá.

Í dag var dreift hér á þingi frumvarpi til laga um peningamarkaðssjóði til að innleiða þessar reglugerðir og þingsályktanir. Þetta er allt saman heilmikið púsl sem ráðuneytin þurfa að púsla til að ná svona EES-málum í gegn. Það er ánægjulegt að sjá að lögin fylgja með, þ.e. eru líka komin fram. Vonandi gerir það að verkum að þetta regluverk og þeir möguleikar að leggja á stjórnvaldssektir og annað ef ekki er farið eftir þessum reglum sé komið fram. Það er von mín að bæði frumvarpið og reglugerðin fái fljóta meðferð í þinginu vegna þess að hér er svo sannarlega um réttarbót og aukna neytendavernd að ræða fyrir fólk sem oft vill einungis finna öruggan stað fyrir peningana sína.