Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

462. mál
[17:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tel reyndar að við gætum haft glettilega mikil áhrif. Við vitum auðvitað hvernig mál ganga fyrir sig þar, þeim er ekki þrýst í gegn í einhverjum atkvæðagreiðslum þar sem minnsti mögulegi meiri hluti ræður heldur tekur þetta oft langan tíma af því að fólk reynir að sammælast um eitthvað sem allir geta sætt sig við. Evrópusambandið hefur eiginlega dálæti á furðulegum litlum þjóðum á landsvæðum norður í hafi eða einhvers staðar austan frá þannig að það hefur oft verið tekið tillit til þeirra. Þau vinna oft saman. Ég styð EES-samninginn. Hann er góður og hann var ótrúlega mikilvægt skref fyrir okkur og við getum örugglega haft meiri áhrif innan hans. En þá þurfum við líka að leggja miklu meira á okkur til þess. Norðmenn eru með 10–15 sinnum fleiri starfandi þarna úti til þess að vakta mál og hafa áhrif á þau á fyrri stigum í staðinn fyrir að bíða alltaf og reyna að fá einhverjar undanþágur. Ég veit að það eru skiptar skoðanir á t.d. veru okkar í NATO. Ég tel að þátttaka okkar í NATO geri okkur kleift að vera herlaus þjóð og ég er þakklátur fyrir það en ég gorta mig ekki af því. Við erum svo heppin að við höfum þarna sterkan bandamann sem sinnir þessum varnarhluta. En ég held að þátttaka okkar í Evrópusambandinu gæti einmitt gefið okkur meira öryggi og meiri lífsgæði á öðrum sviðum. Þetta er náttúrlega alveg ótrúlega langur aðdragandi að því að segja: Já, ég held að við munum hafa töluverð áhrif þarna inni, meiri en 370.000 sálir segja til um.