Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

462. mál
[17:33]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið þó að mér finnist hann ekki hafa svarað spurningunni jafn ítarlega og ég hefði óskað og farið út í sálma sem ég held okkar á milli að myndu krefjast meiri tíma en þeirra tveggja mínútna sem við höfum í þessum andsvörum, þ.e. vera okkar í NATO og ég tala nú ekki um aðild að Evrópusambandinu sem einhvers konar hernaðarbandalagi, sem það reynir nú að firra sig ábyrgð á því að vera. En um það má deila í mjög löngu máli þannig að ég ætla að láta það liggja á milli hluta að sinni. Hann svaraði hins vegar annarri spurningu sem ég var með um það að hvaða leyti afstaða þingmannsins mótast af því að með aðild myndum við hefja þátttöku á fleiri sviðum en þeim sem EES-samningurinn tekur til sem varðar utanríkismál og aðra þætti. Þar erum við sennilega ósammála um margt vegna þess að ég tel Evrópusambandið alls ekki gera góða hluti þegar kemur að þeim málum. Við gagnrýnum bandaríska forsetann fyrir að ætla að reisa múra en gerum það svo sjálf án þess að skammast okkar í eitt augnablik fyrir. Þar segi ég „við“ og á við Evrópusambandið, kaldhæðnislegt nokk.

Mér fannst skemmtilegt hvernig þingmaðurinn nefndi að lítil ríki og litli karlinn gæti haft áhrif með því að hafa sérstöðu og stundum kannski hlustar fólk sérstaklega þegar það er svoleiðis. Þá minnist ég orða prófessors míns frá Belgíu sem nefndi að þótt Ísland væri smáríki væri það nánast óumdeilt að þegar kæmi að sjávarútvegsmálum værum við stórveldi. Það er erfitt að þræta fyrir það í ljósi sögunnar þar sem má segja að þetta pínulitla eyríki hérna úti í miðju hafi (Forseti hringir.) hafi átt stóran þátt í því að móta hreinlega allar þjóðréttarreglur er lúta að (Forseti hringir.) hafrétti og öðru, það verði ekki tekið af því.