Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:19]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil segja það hér að það mál sem hér er til umræðu er að öllu leyti jákvætt, sýnist mér. Það geta allir verið sammála um að lífræn framleiðsla er bæði holl og góð og æskileg. Ég kem hingað í ræðustólinn til að gera athugasemdir við ræðu hv. þingmanns sem talaði rétt áðan, því að það er engin ástæða til þess að tala niður til Alþingis Íslendinga úr ræðustóli með þeim hætti sem mér þótti þingmaðurinn gera. Íslendingar hafa verið þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi á sviði laga um áratugaskeið og allir sem stúderað hafa íslenska réttarsögu þekkja vel til þess að við vorum virkir þátttakendur t.d. í norrænu lagasamstarfi um árabil. Og margar af þeim sem við getum kallað grundvallarbreytingar á íslenskum lögum, grundvallarlög sem hér hafa verið í gildi, þar með talið samningalög og margir aðrir lagabálkar, áttu rót sína að rekja til slíks samstarfs. Það er grundvallarmunur á því að eiga í slíku samstarfi annars vegar og svo hins vegar að vera í farþegasæti. Þar held ég að sé komið að ákveðnu lykilatriði sem er hugsanlega óþægilegt fyrir hv. þingmann og hans flokk að ræða því að það er Alþingi ekki til sóma að hefja hér Evrópusambandið á þann stall að allt gott komi þaðan og að við séum í einhverjum skilningi þess ófær að semja lög sem eru íslenskri alþýðu til heilsubótar og íslenskum iðnaði og landbúnaði til framfara. Það mun vafalaust gefast gott tækifæri síðar til að ræða þetta á þinginu þegar tillaga um þjóðaratkvæði um Evrópusambandsaðild verður til umræðu hér.